Fara í efni

Ráðstefna: Baráttan gegn sýklalyfjaónæmi

15.maí 2017.
Ráðstefna: Baráttan gegn sýklalyfjaónæmi
Sýklalyfjaónæmi er ein helsta ógn sem steðjar að lýðheilsu, matvælaöryggi og framþróun í heiminum í dag samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Dauðsföll af völdum fjölónæmra baktería hafa aukist og er áætlað að sýkingar af völdum sýklalyfjaónæmra baktería valdi nú þegar um 700.000 dauðsföllum í heiminum á hverju ári, þar af 25.000 í Evrópu. 

Hver er staða sýklalyfjaónæmis á Íslandi og í Evrópu og hvernig má verjast frekari aukningu á lyfjaónæmum bakteríum? Matvælastofnun og Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) boða til ráðstefnu um baráttuna gegn sýklalyfjaónæmi mánudaginn 15. maí 2017 kl. 13:30 – 16:30 í fyrirlestrarsal Íslenskrar erfðagreiningar að Sturlugötu 8 í Reykjavík.

Samhliða aukinni notkun sýklalyfja í heiminum, ekki síst í landbúnaði, koma stöðugt fram nýjar kynslóðir ofurbaktería. Þetta eru bakteríur sem hafa þróað ónæmi fyrir einu, mörgum eða jafnvel öllum sýklalyfjum á markaði. Afleiðingin er sú að sýkingum í mönnum og dýrum fjölgar sem ekki er hægt að vinna bug á með sýklalyfjum. Haldi þessi þróun áfram án aðgerða er áætlað að árið 2050 verði dauðsföll af völdum sýklalyfjaónæmra baktería um 10 milljónir árlega á heimsvísu.

Ráðstefnan er haldin í tilefni af heimsókn sendinefndar EFSA til Íslands. Á ráðstefnunni mun forstjóri EFSA segja frá Matvælaöryggisstofnun Evrópu og hvernig stuðla megi að auknu matvælaöryggi með evrópskri samvinnu. Sérfræðingur stofnunarinnar mun fara yfir stöðu sýklalyfjaónæmis í matvælum, dýrum og mönnum í Evrópu og fjalla um leiðir til að lágmarka notkun sýklalyfja í landbúnaði. Þá munu sóttvarnalæknir og yfirdýralæknir greina frá sýklalyfjaónæmi á Íslandi og niðurstöðum íslensks starfshóps sem falið var að leggja fram tillögur um varnir gegn sýklalyfjaónæmi hérlendis. Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast hér að neðan.

Ráðstefnan fer fram á ensku og er öllum opin, þátttakendum að kostnaðarlausu. Skráning fer fram á netfanginumast@mast.isSkráningarfrestur er til og með 11. maí. Taka þarf fram nafn, fyrirtæki/samtök/stofnun og netfang við skráningu.

Ítarefni