Fara í efni

Stoppið, í nafni laganna

Stoppið, í nafni laganna

Að stoppa og hlusta á hvað barn hefur að segja, hvernig því líður er afar mikilvægt fyrir alla sem eiga samskipti við börn.

Börn þurfa að læra mikilvæga orðið STOPP. Að stoppa, hlusta og virða hvernig öðrum líður og efla jákvæð samskipti.

Undanfarið hef ég að hluta til verið sjálfstætt starfandi. Starfið gengur út á það að eiga samtal og samskipti við nemendur og kennara í leik- og grunnskólum, börnin eru á aldrinum 16 mánaða til 8 ára. Ég heimsæki skóla sem óskað hafa eftir aðstoð við innleiðingu Lausnahringsins, sem

ég hef áður skrifað um. Hann kennir okkur samskipti og reglur tengdar þeim. Ein lausnin í hringnum er STOPP.

Ástæðan fyrir heiti á þessum pistli er sú að ég er döpur yfir því hversu margir nemendur eða u.þ.b. 80% sem ég hitti, telja að það sé stranglega bannað að segja stopp við fullorðna. Sum þeirra telja að það sé í lagi nema þetta séu frægir einstaklingar eins og t.d. borgarstjórinn, forsetinn, söngvarar og fleira í þeim dúr. Virkilega umhugsunarverð niðurstaða úr hópi sem telur hátt í 300 börn.

Ef þú ert foreldri einstaklings sem telst enn vera barn þá langar mig að þú veltir fyrir þér aðstæðum barnsins þíns þegar það verður eldra. Er það ennþá í þeirri trú að ekki megi segja stopp við fullorðna eða fræga? Hvað ef því verður boðið upp í bíl hjá ókunnugum? Mikilvægt er að við leggjum línurnar í menntun og fræðslu til barna.

Hvaða persónuleika og eiginleika vilt þú að barnið þitt búi yfir þegar það er fullorðið? Hvernig getur þú lagt grunn að því og styrkt barnið þitt í að taka sjálfstæðar ákvarðanir, setja mörk og læra af lífsreynslu í uppvexti til að vera betri manneskja þegar það er fullorðið? Margir uppalendur og kennarar átta sig ekki á því að þær uppeldisaðferðir sem notaðar eru, hjálpa ekki endilega við að ná þeim árangri sem til er ætlast. Fyrsta skrefið í að vera „góður“ uppalandi er að geta sett mörk og að barn skilji þýðingu þess og geti sett mörk. „Ég elska þig en svarið er nei“ .

Hér á Íslandi höfum við sérstaka stofnun sem vinnur að því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna - Umboðsmann barna. Þar fá fyrirspurnir frá börnum forgang í svörun.

Þess má geta að árið 1981 voru samþykkt á Alþingi heildstæð barnalög. Í þeim er m.a. kveðið á um að barn eigi rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum sem varðar það og að tillit skuli tekið til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska, samkvæmt 1. grein þeirra laga.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna varð fullgiltur hér á landi árið 1992. Hann staðfestir að börn eru sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi óháð réttindum fullorðinna.

Með þessum ábendingum vil ég árétta að börn hafa rödd og málefni um framtíð þeirra eru mikilvæg.

Nauðsynlegt er fyrir uppalendur að átta sig á eigin gildismati við uppeldi barna sinna. Þessi gullni meðalvegur að barnið fái tækifæri til þroska umvafið öryggi og festu. Að setja barni mörk og virða mörk þess getur verið mörgum flókið. Barn getur verið stjórnlaust sama hvort um óraunhæfar kröfur eða engar kröfur sé að ræða. Börn þurfa ramma þegar þau þroskast, þrátt fyrir stöðugar breytingar. Eins og eftir að barn lærir að lesa þá er sjaldnar lesið fyrir það. Þegar það er farið að ganga er sjaldnar haldið á því. Með því að takast á við daglegt líf barnsins í þroskaferli sínu, vera samtaka í aðferðum og uppeldi, gengur hlutverkið eins vel og kostur er. Í dag eru fjölmargar aðferðir sem uppalendum stendur til boða. Hægt er að fá ráðgjöf og aðstoð í formi námskeiða, samtala og fleira.

Í skólaheimsóknum mínum ræði ég m.a. við börnin við hverja megi segja stopp? Hvernig okkur líður með það þegar sagt er stopp við okkur? Hvernig okkur gangi að fá aðra til að stoppa í framkomu við okkur? Ýmsar vangaveltur koma upp þ.á.m. hvort megi segja stopp við ömmu, ef hún vill knúsa okkur bless, ef okkur langar ekki að fá knúsið. Sum komu með þá skýringu að það sé vond kaffilykt af henni. Hvar liggja mörkin? Eru fjölskyldusiðir og hefðir teknar fram fyrir líðan barna, verða þau að taka þátt?

Enn þann dag í dag árið 2021 er sú sorglega staðreynd að ákveðin drottnun og vald yfir börnum líðst í okkar litla samfélagi. Auk þess sem ólíkir menningarheimar mætast, trúarbrögð og siðir. Þá er mikilvægt að starfsfólk sem kemur að menntun barna styðjist við lög og sáttmála sem styrkja málstað barna. Sérhver sá sem búsettur er á Íslandi ber að fara eftir þeim lögum sem hér eru.

Mikilvægt er að börn fái tækifæri til að spyrja þegar þau vilja. Þau ræði við einhvern sem þau treysta og fái svör við spurningum sínum um mannleg samskipti, hvað er í lagi og hvað ekki. Með því móti eru börnin betur undirbúin fyrir framtíð sína og því mótlæti og áskorunum sem þau eiga eftir að mæta.

Ég reyni eftir fremsta megni að vera til staða fyrir börn. Þau geta spurt að hverju sem er. Fyrir uppalendum kynni ég mig sem talsmann barna, þar sem ég þekki hvaða lög og reglugerðir gilda um hagsmuni þeirra og er þess vegna rödd barnsins.

Af miklum eldmóð held ég áfram að þjálfa börn að skilja og tileinka sér tungumál Lausnahringsins. Þau eiga að vita hvað er í lagi í samskiptum og þau mega segja frá ef þeim líður illa og verða hrædd.

Segðu frá!

Arnrún Magnúsdóttir  
leikskólakennari 
Fræðsla ekki hræðsla