Fara í efni

ÞARF AÐ GERA BETUR Í SJÁLFSVÍGSFORVÖRNUM?

ÞARF AÐ GERA BETUR Í SJÁLFSVÍGSFORVÖRNUM?

Félagsvísindatorg: Þarf að gera betur í sjálfsvígsforvörnum? Um kvíðaröskun og félagsfælni

Hvenær: Miðvikudaginn 13. september kl. 12.00
Hvar: Háskólinn á Akureyri, stofu M101

Miðvikudaginn 13. september kl. 12.00-12.50 munu Gunnar Árnason og Eymundur Luter Eymundsson ræða og eiga samtal við áheyrendur um efnið kvíðaröskun og félagsfælni og hvort þurfi að gera betur í sjálfsvígsforvörnum.

Í tilefni af Alþjóðlega sjálfsvígsforvarnardagsins 10. september og alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins 10. október n.k. fjalla þeir Gunnar og Eymundur um sjálfsvígsforvarnir í framhaldsskólum með áherslu á geðrækt og miðla af reynslu sinni varðandi kvíðaraskanir og félagsfælni. Kynntar verða m.a. rannsóknir þar sem megináherslan er á eflingu þekkingu nemenda á geðheilsu, að vekja umræður meðal þeirra og þjálfa með þeim úrræðahæfni. Áherslan er í anda jákvæðu sálfræðinnar þar sem unnið er með styrkleika ungmennanna og seiglu. Hugmyndir um geðheilsu eru í fyrirrúmi í stað geðsjúkdóma. Leidd verða rök að því að vinna þurfi sjálfvígsforvarnir út frá lýðheilsuforsendum þar sem rannsóknir, gott aðgengi að heilsusamlegum valkostum og fræðsla er í fyrirrúmi.

Gunnar byggir erindi sitt annars vegar á meistaranámi sínu við menntavísindadeild HÍ þar sem hann rannsakaði sjálfsvígforvarnir í framhaldsskólum og hins vega á reynslu sinni sem framhaldsskólakennari. Gunnar hefur starfað sem framhaldsskólakennari í sálfræði og félagsgreinum í 22 ár. Í haust (2017) mun hann ljúka meistaranámi í heilbrigðisvísindum með áherslu á geðheilbrigðisfræði við HA. Lokaverkefnið fjallar um reynslu og viðhorf skólastjórnenda framhaldsskóla af geðrækt í skólum.

Eymundur sem hefur reynslu af kvíðaröskun og félagsfælni mun fjalla um það hvernig sé að lifa með geðröskun. Eymundur útskrifaðist sem ráðgjafi úr Ráðgjafaskóla Íslands 2009 og sem félagsliði vorið 2016. Hann hafði sjálfsvígshugsanir frá 12. ára til 38. ára aldurs en þá öðlaðist hann von í endurhæfingu eftir aðra mjaðmaliðaskiptingu 2004. Eymundur er einn af stofnendum Grófarinnar. Hann hefur skrifað fjölda greina og kynnt starfsemi Grófarinnar.

Nánari upplýsingar veitir:

Dr. Hermann Óskarsson prófessor við hug- og félagsvísindasvið

Félagsvísindatorgið verður í stofu M101 og er öllum opið án endurgjalds.