HUNDAR Í STRÆTÓ ?
Opið bréf til stjórnar Strætó bs.
Um áformað leyfi til að flytja gæludýr, þ.m.t. hunda, með í ferðum Strætó.
Undirritaður lögmaður, sem situr í stjórn Astma- og ofnæmisfélags Íslands, vill hér með koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri við stjórn Strætó bs, - nú þegar það kemur fram í fjölmiðlum (Visir.is/GÁG) frá Stætó bs. að „framtaki Andra“ við undirskriftasöfnun sé fagnað innan Strætó b.s. Að áliti undirritaðs mætti fremur nefna þetta frumhlaup Andra og stjórnarinnar. Vil ég hér gefa örstuttar skýringar á þeirri skoðun minni:
1) Með Strætó ferðast fjölmargt fólk, sem hefur líffræðilegt ofnæmi fyrir hundum, köttum og fleiri gæludýrum. Með áformuðu leyfi til að flytja gæludýr í Strætó, er heilsufarshagsmunum þessa fólks stefnt í bráða hættu. Sjálfsagt væri að gera þá undantekningu, að leyfa blindrahundum för með strætisvögnum í fylgd eiganda síns, enda sé viðeigandi skilríkjum framvísað.
2) Í greinum 33.a til 33 d í fjöleignarhúsalögum nr. 26/1994, sbr.1 gr. laga nr. 40/2011, felast almennar reglur um hundahald í fjöleignarhúsum, sem stjórn Strætó bs. væri hollt að kynna sér til að draga af þeim nothæfan lærdóm fyrir þá hættulegu nánd, sem verður í strætisvögnum, ef til leyfis kemur.
3) Fram hefur komið nýlega í fréttum, að í Reykjavík séu nú taldir vera u.þ.b. 10.000 hundar. Hins vegar hafa aðeins um 5.000 hundar verið löglega skráðir. Þetta þýðir að hinn hópurinn, þ.e. u.þ.b. 5.000 hundar, eru óskráðir og ólöglegir. Í því felst, að eigendur þeirra hafa ekki sótt um eða fengið leyfi til hundahalds. Þeir hundar eru þá ekki merktir (örmerktir), þeir eru ekki undir eftirliti um sjúkdóma, þeir eru ekki hreinsaðir (sullaveiki), ekki bólusettir og einhverjir þeirra eru af mjög hættulegum tegundum, sem ekki er unnt að fá leyfi fyrir hér á landi og síðast en ekki síst hafa eigendur þessara ca 5.000 hunda ekki keypt eða fengið keypta lögbundna ábyrgðartryggingu fyrir tjóni, sem hundar þeirra kunna að valda á fólki eða dýrum. Hyggst stjórn Strætó bs. flytja ótryggða, óhreinsaða, óbólusetta og jafnvel stórhættulega hunda innan um fólk í strætisvögnum? Verður það e.t. v. lagt á herðar vagnstjóra að kanna skírteini fyrir hundum áður en þeim er hleypt inn í vagnana?
Það er skoðun undirritaðs, að stjórn Strætó bs. þurfi að ígrunda öll þessi atriði og eflaust fleiri mun betur áður endanleg ákvörðun verður tekin.
Reykjavík, 4. mars 2015.
Virðingarfyllst,
Björn Ólafur Hallgrímsson, hrl.