Óhefðbundin og ógagnreynd heilsustarfsemi yfirlýsing frá Upplýst
Yfirlýsing frá Upplýst hópnum varðandi „óhefðbundna og ógagnreynda heilsustarfsemi“.
Upplýst hópurinn, sem heldur úti vefsíðunni www.upplyst.org hefur síðan árið 2013 haft það markmið að vekja athygli samfélagsins á skaðsemi margra meðferða og fæðubótarefna sem flokkast undir „óhefðbundna og ógagnreynda heilsustarfsemi“. Berjast þannig gegn því sem við metum sem skaðlegt og gagnslaust og stríðir jafnvel gegn lögum og reglugerðum um neytendavernd. Dæmi um það eru órökstuddar fullyrðingar um heilsufarsleg áhrif á umbúðum matvæla og fæðubótarefna sem og ýmiskonar meðferðir með og án tækjabúnaðar.
Upplýst hópurinn samanstendur af um tuttugu fagaðilum úr röðum heilbrigðisfræða og raungreina þar með talið lækna, næringarfræðinga, ljósmæðra, lyfjafræðinga, lífeðlisfræðinga, líffræðinga, sálfræðinga og erfðaráðgjafa. Okkur er umhugað um heilsu fólks og viljum vekja alla til umhugsunar um að margar meðferðir og fæðubótarefni sem selt er dýrum dómum, oftar en ekki í heima eða pýramídasölu, hafa engin vísindi á bak við sig og geta hreinlega verið skaðlegt heilsunni, jafnvel óafturkræft.
Það sem komið hefur fram í fjölmiðlum frá læknum, til að mynda yfirlækni krabbameinsdeildar Landspítala og virtum læknum sem komið hafa í viðtal, er af sama meiði og það sem Upplýst hópurinn hefur haft fram að færa frá stofnun hópsins. Hópurinn hefur sent inn erindi til Neytendastofu þar sem bent hefur verið á söluaðila sem virðast hafa annað á bak við sig en hrein og klár vísindi, jafnvel fals. Því miður hefur skrifum og ábendingum hópsins verið misvel tekið, sumum erindum svarað seint eða alls ekki þrátt fyrir að þau séu þess eðlis að tekið sé á þeim af alvöru málinu og ábendingarnar kannaðar. Einmitt eins og Kastljósið og þeir sem þar hafa komið fram gera. Dæmi um málefni sem hópurinn hefur látið sig varða; Food detective, IgG og greining fæðuóþols, Zorbmax, raftíðnibað, blómadropar, doulur og fylgjuát og heilsufarsleg loforð um Aloa Vera safa.
Við hvetjum fólk til að láta ekki blekkjast heldur að hugsa sig vandlega um, nota heilbrigða skynsemi og ráðfæra sig við sinn lækni eða annan heilbrigðismenntaða fagaðila áður en eitthvað sem hljómar eins og ósannreynd aðferð eða lyf / efni er notað eða tekið inn. Við eigum bara eina heilsu og góð heilsa er það mikilvægasta sem við eigum, tökum því upplýsta ákvörðun um allt það sem að henni snýr.
Upplýst hópurinn
Anna Ragna Magnúsardóttir - næringarfræðingur
Atli Jósefsson - lífeðlisfræðingur
Björn Geir Leifsson - læknir
Fríða Rún Þórðardóttir - næringarfræðingur, næringarráðgjafi
Ingibjörg Gunnarsdóttir - prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands
Júlía Ómarsdóttir - hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir
Kristín Ólafsdóttir - lífefnafræðingur og dósent í eiturefnafræði við Háskóla Íslands
Magnús Jóhannsson - læknir, prófessor emeritus.
Magnús Karl Magnússon - læknir og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands
Sesselja S. Ómarsdóttir - lyfjafræðingur, prófessor í lyfjafræð
Svanur Sigurbjörnsson- læknir
Vigdís Stefánsdóttir - erfðaráðgjafi