Fara í efni

Vísindi á Reykjalundi

Dr. Marta Guðjónsdóttir skrifar.
Vísindi á Reykjalundi

Dr. Marta Guðjónsdóttir skrifar.

Vísindadagur á Reykjalundi var haldinn í 13. sinn föstudaginn 18. nóvember síðastliðinn, en þar er vettvangur fyrir starfsmenn Reykjalundar að kynna niðurstöður rannsókna sinna fyrir samstarfsfólki sínu og öðrum gestum.

Viðfangsefni rannsókna í endurhæfingu eru mjög fjölbreytt enda margar fræðigreinar sem koma þar við sögu.

Samvinna við háskólana á Íslandi gegnir þar einnig mikilvægu hlutverki því margir nemendur bæði í grunnnámi og framhaldsnámi vinna verkefni sín á Reykjalundi undir leiðsögn starfsmanna þar.

Dagskrá 13. vísindadagsins var fjölbreytt að venju og ætla að ég í greinarkorni þessu að stikla á stóru varðandi það helsta sem þar kom fram.

Eftirfylgd til að koma í veg fyrir bakslög í þunglyndi 

Rannsóknin er BS verkefni í samstarfi nemanda í íþróttafræði og tveggja nemenda í sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Ábyrgðarmaður er Inga Hrefna Jónsdóttir forstöðusálfræðingur á Reykjalundi. Í langvinnu þunglyndi koma þunglyndislotur endurtekið þrátt fyrir árangurríka meðferð og aukin hætta er á bakslögum því oftar sem það á sér stað.  Þátttakendur í rannsókninni voru einstaklingar sem höfðu verið í endurhæfingu á Reykjalundi og fengið þar hugræna atferlismeðferð (HAM) við þunglyndi. Þeim var skipt tilviljunarkennt í tvo eftirfylgdarhópa, annars vegar í hóp sem fékk HAM sem byggir á núvitund, hins vegar í hóp sem fékk líkamsþjálfun. Eftirfylgdin byggðist á námskeiðum 1 sinni í viku, 2 klukkustundir í senn í 8 vikur. Rannsóknin leiddi í ljós að þessar tvær eftirfylgdaraðferðir eru jafn áhrifaríkar til að viðhalda bata og koma í veg fyrir bakslög.

Forspárgildi spurningalista og mælinga í hvíld

Tvær rannsóknir fjölluðu um forspárgildi spurningalista eða mælinga í hvíld, önnur á offitusviði en hin á hjarta- og lungnasviði.

Í rannsókninni á offitusviði var lagt mat var á forspárgildi Epworth spurningalistans varðandi kæfisvefn. Listinn er mikið notaður til að skima fyrir dagsyfju sem getur verið tilkomin vegna ómeðhöndlaðs kæfisvefns. Þekkt er að kæfisvefn er algengari hjá fólki með offitu og því mikilvægt að hafa gott tæki til finna þá sem þurfa að fara í svefnmælingu. Rannsóknin sýndi að Epworth spurningalistinn hefur ekki forspárgildi fyrir marktækan kæfisvefn hjá sjúklingum með offitu og er því ekki nothæfur í þessum hópi. Byrjað er að skoða önnur matstæki sem hugsanlega gefa betri raun. Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Hildur Thors læknir.

Í rannsóknnni á hjarta- og lungnasviði var kannað hvaða hvíldarmælingar, sem alla jafna eru gerðar í tengslum við mat á sjúklingum með langvinna lungnateppu (LLLT) eða langvinna hjartabilun LHB), gætu gefið vísbendingar um þol þeirra. Þolpróf með mælingum á súrefnisupptöku krefjast sérhæfðs búnaðar og þjálfaðs starfsfólks en gefa mjög mikilvægar upplýsingar um horfur þessara sjúklinga. Rannsóknin leiddi í ljós að fitufrír massastuðull (fat free mass index, kg/m2) gefur bestu vísbendinguna hjá sjúklingum með LHB, en mæling á innöndunarrýmd sem hlutfall af heildarrýmd lungna (IC/TLC) gefur bestu vísbendinguna hjá LLT sjúklinga. Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Marta Guðjónsdóttir lífeðlisfræðingur.

Lífsgæði, mæði, þrek og andleg líðan

Lungnasvið kynnti rannsókn á mæði, sem er eitt helsta einkenni sjúklinga með langvinna lungnateppu (LLT). Í rannsókninni voru tengsl mæði við heilsutengd lífsgæði könnuð og hvaða þættir tengjast helst mæði við upphaf endurhæfingar á lungnasviði Reykjalundar. Eins var metið hvort breytingar á þessum þáttum tengdust breytingu á mæði. Í stuttu máli sýndu niðurstöðurnar að mæði hefur sterk tengsl við heilsutengd lífsgæði og er þetta sterka samband þekkt úr öðrum rannsóknum. Varðandi þá þætti sem mældir voru við upphaf endurhæfingar höfðu kvíði og líkamlegt þrek (mælt með gönguprófi) sterkasta fylgni við mæði. Mæði minnkaði við sex vikna endurhæfingu og hafði sá bati marktæka fylgni við breytingu á kvíða. Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Elfa Dröfn Ingólfsdóttir hjúkrunarfræðingur.

Hverjir halda áfram og hverjir hætta?

Fyrri rannsóknir á Reykjalundi hafa sýnt góðan árangur meðferðar bæði á offitusviði og hjartasviði. Tvær rannsóknir sem kynntar voru á vísindadegi fjölluðu um það hverjir halda áfram og hverjir hætta og voru gerðar með það að markmiði að finna hvort eitthvað geti vísað á þá sem þurfa aukinn stuðning.

Rannsóknin á offitusviðinu fjallaði um brottfall úr meðferðinni sjálfri og var meistaraverkefni í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands, ábyrgðarmaður Erlingur Jóhannsson prófessor. Á þeim tíma sem rannsóknin var gerð (2014) tók meðferðin á offitusviði langan tíma með undirbúningsmeðferð á göngudeild, meðferðartímabilum á dagdeild og svo eftirfylgd í allt að tvö ár. Talsvert brottfall var úr meðferðinni á langri leið og var markmiðið að finna hvort einhverjir líkamlegir, félagslegir eða andlegir þættir einkenni brottfallshópinn. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að konum sem hætta í meðferðinni líði betur við ýmsar félagslegar aðstæður en um leið fengu þær fleiri stig á þunglyndisprófi. Karlar skiluðu sér síður inn í meðferð og munur á þeim sem luku meðferð og brottfallshópnum var einkum líkamlegur svo sem þyngd og aldur. Höfundar ályktuðu að mikilvægt sé að aðgreina hópinn eftir menntun, kyni, aldri og andlegri líðan áður en viðkomandi er bent á lausnir við sitt hæfi.

Á hjartasviðinu var sjónum beint að því hversu vel sjúklingum, sem lokið höfðu hjartaendurhæfingu, gengi að halda áætlun varðandi hreyfingu. Tilgangurinn var að kanna hvort breyta þyrfti verklagi gagnvart einhverjum ákveðnum sjúklingahópi. Fleiri karlar en konur voru í hópnum (72%), algengasta sjúkdómsgreiningin var kransæðasjúkdómur (67) og meirihlutinn (69%) voru útivinnandi. Aðspurðir sögðust 43% hafa hreyft sig fyrir veikindin en 3-5 mánuðum eftir lok endurhæfingar voru það nær 90%. Skoðað var hvort eitthvað einkenndi hópinn sem ekki hélt áfram að hreyfa sig og voru það í flestum tilfellum veikindi sem skýrðu það. Umsjónarmaður með gæðarannsókninni var Sólrún Jónsdóttir sjúkraþjálfari.

Vefjagigt og svefn

Vefjagigt (fibromyalgia) er heilkenni sem einkennist af útbreiddum langvinnum verkjum, þreytu, andlegri streitu og minnkuðu úthaldi auk svefntruflana. Rannsóknin beindist fyrst og fremst að svefni og viðhorfum til svefns hjá konum með vefjagigt í samanburði við heilbrigðar jafnöldrur en einnig var andleg líðan og áhrif vefjagigtar á heilsu metin fyrir og eftir sex vikna endurhæfingu á gigtarsviði Reykjalundar. Heilsufar, svefnleysi og viðhorf til svefns var verra hjá vefjagigtarhópnum miðað við samanburðarhóp, en framför varð á þeim þáttum við endurhæfingu. Á milli hópanna var hins vegar enginn marktækur munur á svefnþáttum mældum með virknimælum og þeir breyttust ekki á tímabilinu. Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Marta Guðjónsdóttir lífeðlisfræðingur.

Lífsgæði og heilablóðfall

Rannsóknin var meistaraverkefni í talmeinafræði við Háskóla Íslands og ábyrgðarmaður er Þórunn Hanna Halldórsdóttir talmeinafræðingur. Málstolssjúklingar í kjölfar heilablóðfalls búa við slök heilsutengd lífsgæði samanborið við flesta sjúklingahópa. Þó eru lífsgæði víðast hvar ekki metin kerfisbundið með réttmætum og áreiðanlegum hætti, þrátt fyrir að grundvallarmarkmið með inngripi sé að auka lífsgæði sjúklinga. Ein af meginástæðum þess er skortur á mælitækjum. The Stroke and Aphasia Quality of Life Scale-39g var því þýddur og staðfærður á íslensku og forprófaður. Þýðingin reyndist fullnægjandi og stenst samanburð við frumútgáfu mælitækisins. Niðurstöður úr forprófun benda til þess að heilsutengd lífsgæði einstaklinga með málstol séu marktækt lakari en einstaklinga án málstols í kjölfar heilablóðfalls.

Eins og ofangreint ber með sér er líflegt og frjótt vísindastarf á Reykjalundi. Nánari upplýsingar um það má finna á heimasíðu Reykjalundar.

Marta Guðjónsdóttir er rannsóknastjóri á Reykjalundi og lektor við læknadeild HÍ.