Þar hvatti hann aðildarríkin til þess að viðurkenna vímuefnamisnotkun sem langvinnan sjúkdóm og lagði áherslu á að auka, í samræmi við það, viðbrögð hvað varðar lýðheilsu og heilbrigðisþjónustu. Einnig ræddi hann mikilvægi þess að úrræði við fíkn á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu stæðu öllum til boða, að meðferðin styddi þá til endurreisnar sem eru á batavegi – án mismununar og án þess að þurfa að sæta ámæli eða fordómum.
Áfengisneysla og önnur vímuefnaneysla er ekki sjúkdómur. Áfengis- og vímuefnaneysla er ekki heldur birtingarmynd eða afleiðing af undirliggjandi sjúkdómi. Hjá okkur Íslendingum, og í þeim samfélögum sem við berum okkur gjarnan saman við, er áfengis- og vímuefnaneysla þvert á móti sjálfsögð og eðlileg, þ.e.a.s. hófleg neysla telst hluti af eðlilegu lífi fullorðinna og heilsuhraustra manna og kvenna.
Áfengi hefur lengi verið löglegt vímuefni og fornleifar og ritaðar heimildir benda til þess að vín hafi verið framleitt í að minnsta kosti 8.000 ár. Vín er nefnt í Hómerskviðum og í Hávamálum og Íslendingasögum má lesa um drykkju og ofdrykkju mjaðar. Í dag er áfengi beinlínis markaðssett til að nota við skemmtanir og alls konar önnur tækifæri. Það sama gildir um ólögleg vímuefni þó markaðssetning þeirra hafi verið með öðrum formerkjum.
Langflestir hér á okkar góða landi nota áfengi eða önnur vímuefni einhvern tíma á sinni ævi en hluti hópsins missir þó stjórn á neyslunni. Áfengissýki hefur verið fylgifiskur áfengisneyslunnar alla tíð. Áfengisvandi er talinn hafa verið ein af meginástæðum fyrir hnignum Rómaveldis og áfengisbann Múhameðs í Kóraninum var sett vegna hræðilegs áfengisvandamáls sem herjaði á araba á þeim tíma. Sá hluti hópsins sem missir stjórn á vímuefnaneyslu sinni verður veikur – fær fíknsjúkdóm sem er langvinnur heilasjúkdómur og orsakast af erfða- og umhverfisþáttum. Líffræðilegir þættir og uppeldislegir þættir, aðrir sjúkdómar, heilaskaði og aldur og kyn hafa einnig áhrif. Sjúkdómurinn herjar á venjulegt fólk, þverskurð samfélagsins og er algengur miðað við aðra sjúkdóma.
Í umræðu um fíkn er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að hjá SÁÁ er til meðferð við áfengis- og vímuefnafíkn sem virkar vel. Allt of margir bíða of lengi með að leita sér hjálpar, sérstaklega konur. Meðferð SÁÁ er byggð á traustri þekkingu á sviði heilbrigðisvísinda og allur aðbúnaður er til fyrirmyndar. Meðferðin hefur auk þess verið afglæpavædd í 39 ár – allir sem þurfa fá heilbrigðisþjónustu, og skiptir þá engu hvort þeir neyta ólöglegra eða löglegra vímuefna. Enginn lendir í félagslegum vanda vegna meðferðarinnar eða sætir ámæli og fordómum. Þannig höfum við Íslendingar haft það í bráðum 40 ár – eins og Landlæknir Bandaríkjanna er að óska eftir núna.
Látið ekki eigin fordóma eða úrtöluraddir telja úr ykkur kjarkinn. Ef þú eða einhver sem þér þykir vænt um þarf aðstoð vegna áfengis- eða vímuefnavanda hafðu þá samband. Kíktu líka á vefinn okkar. SÁÁ tekur ævinlega vel á móti sínu fólki.
Grein eftir Arnþór Jónsson, formann SÁÁ
Af vef saa.is