Talið er að 2-4% þjóðarinnar eða um 10.000 manns hafi vefjagigt og eru konur í meirihluta. Einstaka barn greinist en algengast er að greiningin komi upp á aldrinum 20-40 ára. Í sinni einföldustu mynd er vefjagigt aukið verkjanæmi í miðtaugakerfinu sem þýðir að verkjaboð hvort sem þau hafa ákveðna verkjakveikju í stoðkerfinu eða ekki streyma óhindrað eftir taugakerfinu og magnast innan miðtaugakerfisins. Við vitum í dag að það er brenglun á taugaboðefnum sem hefur með verkjaupplifun að gera og að fólk með vefjagigt upplifir verki á annan hátt en heilbrigðir. Annað sem fylgir vefjagigtinni er þreyta, oft yfirþyrmandi þreyta og svefntruflanir eru algengar. Skortur á djúpa svefninum, þar sem líkaminn hvílist og endurnærist, er algengasta svefntruflunin. Þess vegna vaknar fólk þreytt, jafnvel þreyttara en þegar það fór að sofa og því fylgir stirðleiki því vöðvarnir eru óúthvíldir. Vefjagigtinni getur fylgt fjöldinn allur af öðrum einkennum frá öllum líffærakerfum.
Dæmi um nokkur eru, kviðverkir og ristilkrampar, tíð þvaglát, kláði í húð, fótapirringur, hraður hjartsláttur, dofi, höfuðverkur, ofurnæmi gagnvart birtu, hávaða og lykt, minnisleysi o.fl. Fólk leitar sér hjálpar hjá viðkomandi sérfræðingi en oftar en ekki er útkoman sú að allt er í góðu lagi. Það er líka rétt að oftast er allt í lagi með líffærin, truflunin er hjá stjórnandanum – taugakerfinu. Vefjagigt er ekki geðsjúkdómur en henni geta fylgt andleg einkenni eins og kvíði, depurð, fælni og áfallstreita.
Hjá Þraut hafa menn komist að þvi að dóttir vefjagigtarkonu er 8x líklegri til að fá vefjagigt en almennt gerist. Erfðaþátturinn er því allnokkur. Ýmislegt á lífsleiðinni getur kveikt á vefjagigtinni og má þar nefna líkamlegt eða andlegt álag, áföll, slys og aðrir sjúkdómar. Streita/ofálag andlegt sem líkamlegt er versti óvinur vefjagigtarinnar og nóg er af því í þjóðfélaginu.
Meðferð vefjagigtar er f.o.f. heildræn meðferð. Fræðsla um eðli sjúkdómsins og lífstílsbreytingar til bóta, svefnbætandi aðgerðir, regluleg þjálfun og slökun og orkusparandi aðgerðir. Breytt mataræði getur bætt líðan en læknar ekki. Hugræn atferlismeðferð hefur sannað gildi sitt í meðferð vefjagigtar til að fólk læri að stýra hugsunum sínum í rétta átt, minnka streituupplifun og líða betur.
Það hefur loðað við vefjagigtina að hún sé tískusjúkdómur, ruslakistugreining og jafnvel aumingjaskapur. Í mínu starfi hef ég kynnst fjölmörgum vefjagigtarþolendum og upp til hópa er þetta samviskusamt og hörkuduglegt fólk, sem gerir miklar kröfur til sín (stundum of miklar ) en hefur skerta starfsorku vegna gigtarinnar.
Það er orðið tímabært að við sýnum því skilning að álagsþröskuldur okkar er mismunandi. Fólk með vefjagigt er mis illa haldið og árangur meðferðar misgóður. Því fyrr sem gripið er í taumana því betra. Það er kúnst að læra hvar mörkin liggja. Flestir hafa starfsgetu þó skert sé og það er allra hagur að vinnuveitendur liðki til og gefi fólki tækifæri til að vinna hlutastarf. Hver og einn hefur þörf fyrir jafnvægi í lífinu, jafnvægi milli svefns, vinnu, hvíldar, hreyfingar og einkalífs, jafnvægi til að geta lifað hamingju- og innihaldsríku lífi.
Nú býðst lesendum að nýta sér slökunaræfingu sem finna má á youtube, leitarorð: Slökunaræfing með Eydísi.
Njótið vel.
Höfundur er Eydís Valgarðsdóttir, sjúkraþjálfari.