Latneska heitið “Dementia” er
myndað af orðinu “mens” sem
þýðir hugur/hugsun og fyrir
framan er minnkunarforskeytið
“de”. Orðið þýðir þannig
“minnkandi hugsun” sem er mjög
lýsandi fyrir ástandið. Þetta
heiti hefur verið þýtt á íslensku
svo sem venja er en það eru hins
vegar til tvær þýðingar. Önnur er
“vitglöp” sem er nánast bein
þýðing en sem ekki margir nota
og “heilabilun” sem hefur fengið
miklu meiri útbreiðslu þótt sumum
finnist það heldur niðrandi.
Heilabilun hjá gömlu fólki (latína: dementia senilis; enska: senile dementia)
hefur einnig verið nefnd “elliglöp” og sést það stundum notað. Heilabilun hjá
þeim sem eru yngri en 65 ára (latína: dementia presenilis; enska presenile
dementia) hefur verið nefnd “reskiglöp” en það er þó sjaldan notað. Latneska
orðið “dementia” er notað í tungumálum nágrannaþjóðanna en með mismunandi
stafsetningu svo sem í ensku (dementia), frönsku (démence), þýsku (demenz) og
í öllum norðurlandamálunum (oftast demens eða dementia).
Heilabilun er ástand sem á sér margar orsakir. Ástandið felur í sér að viðkomandi
einstaklingur getur vegna minnisskerðingar eða annarra breytinga í hugsun ekki
lengur séð eins um sig og þarf einhverja aðstoð. Þessi skilgreining virðist einföld
en er snúin þegar nánar er að gáð. Virkni og skyldur einstaklinga eru afar misjöfn
því það er mikill munur á kröfum til einstaklings í ábyrgðarmiklu starfi og til þess
sem hefur verið utan vinnumarkaðar í langan tíma. Sá síðarnefndi getur því verið
kominn með töluverða skerðingu áður en hann telst vera með heilabilun
samkvæmt þessari almennu viðmiðun en sá fyrrnefndi uppfyllir fyrr skilyrði
heilabilunar. Svo er gerður greinarmunur eftir aldri þegar notaðar eru alþjóðlegar
viðmiðanir svo sem sjúkdómameinaskrá WHO (kallast ICD). Aldursmörkin eru
65 ár sem er algengasti aldur fyrir töku lífeyris í heiminum og eru þessi mörk því
frekar félagsleg en líffræðileg þótt þau séu hér notuð í líffræðilegum tilgangi. Á
íslensku er einfaldlega talað um snemmkomna heilabilun
(sem hefst fyrir 65 ára aldur) og síðkomna heilabilun (sem hefst frá og með 65 ára aldri)1).
Heilabilun er venjulega skipt í þrjú stig; væg, miðlungs og alvarleg með vaxandi
einkennum og þjónustuþörf. Algengustu ástæðurnar eru vegna einhvers konar
taugahrörnunarsjúkdóma í heila en sá algengasti er Alzheimer sjúkdómur en
næst á eftir koma Lewy sjúkdómur, Parkinson heilabilun og flokkur
framheilabilunar. Fyrst fer einstaklingurinn þó í gegnum forstig heilabilunar og
verður gerð nánari grein fyrir því í næsta pistli. Sum tilvik heilabilunar myndast
hins vegar skyndilega, einkum vegna blóðrásartruflunar í heila (blóðtappi eða
blæðing) eða slyss.
Heilabilun er mjög aldursháð og mjög algeng á efstu árum. Talið er að um 2%
allra sem eru 65 ára séu með heilabilun af einhverjum orsökum og svo tvöfaldast
tíðnin á hverjum 5 árum fram undir nírætt þegar þetta á við um þriðjung allra.
Þessi aldurstengda aukning er sameiginleg niðurstaða fjölmargra rannsókna þótt
þær sýni ekki allar sömu aldurstíðni og eru ofangreindar tölur því meðaltal. Tíðni
heilabilunar hefur heldur minnkað hlutfallslega en vegna mikillar aukningar
eldra fólks heldur fjöldi sjúklinga áfram að aukast mikið næstu tvo áratugi2).
Í næstu pistlum verður rætt um forstig heilabilunar og skoðað til hvaða ráða er
hægt að grípa, bæði hvað varðar forvarnir og meðferð.
Heimildir :
1) https://icd.who.int/browse11/l-m/en
2) https://www.who.int/mental_health/neurology/dementia/dementia_the maticbrief_epidemiology.pdf
Grein eftir Jón Snædal öldrunarlækni