Litabækur eru dásamlegar; töfrum gæddar og til þess gerðar að glæða gráan hversdaginn lífi. Ég hef enn ekki, á langri ævi, rekist á barn sem ekki hrífst af þeirri skemmtilegu list að lita, en á afþreyingar- og fræðsluvefnum Bright & Brainy tekur Amy Bodden, sem ritstýrir og heldur úti síðunni, saman helsta ávinning barna af því að lita, sem að sögn Amy er mun meira en einungis skemmtileg afþreying.
Amy fer hér yfir átta helstu ástæður þess að börnum ætti að vera gert kleift að lita við öll möguleg og ómöugleg tækifæri, en eins og sjá má af umfjöllun Bright & Brainy er til mikils að vinna með liti í litlum höndum:
#1 ~ Það að lita hjállpar barnið barninu að samhæfa fínhreyfingar sínar og skerpa á samhæfingu augna og handa, með því að æfa sig að lita inni fyrir línuna.
#2 ~ Það að lita hjálpar barninu að æfa blýantagripið og styrkir vöðvana í höndunum, fingrunum og úlnliðnum. Það eitt að lita getur því verið mikilvægt, því þegar barnið seinna meir hefur skólagöngu verður barninu nauðsynlegt að kunna að grípa um blýant.
#3 ~ Það að lita í öllum regnbogans litum kennir barninu ekki einungis að nema blæbrigði lita og læra um ólíkar litasamsetningar, heldur skerpir afþreyingin einnig á flóknari sjónrænum þáttum eins og hlutföllum og ólíkum mynstrum, sem svo aftur getur hjálpað barninu að læra lestur og grundvallaratriði í stærðfræði þegar fram í sækir.
#4 ~ Það að lita kennir barninu þolinmæði og kennir þeim að greina smáatriði.
#5 ~ Það að lita getur styrkt sjálfsmynd barnsins og veitt barninu ánægju, þegar myndin er fullunnin. Barnið hefur lokið við að lita fallega mynd og getur verið stolt af sköpunaverki sínu.
#6 ~ Það að lita er slakandi. Sum börn forðast að teikna sjálf, því þau eru hrædd við að eitthvað fari úrskeiðis og að myndin verði ekki eins falleg og þau hefðu vonast til. En litaæfingin er slakandi og örugg, því línurnar hafa þegar verið dregnar og því geta litabækur og litablöð orkað slakandi á barnið.
#7 ~ Það að lita getur kennt börnum að setja sér raunhæf markmið sem sér fyrir endann á, samhliða því sem börnin velja hvaða litir fara best saman og hvernig þau vilja að myndin líti út að lokum.
#8 ~ Það að lita getur falið í sér skemmtilega samverustund foreldra og barna.
Skjáskot // Bright & Brainy
#1 ~ Streitulosun. Hver hugsar eiginlega um amstur hversdagsins með vaxiliti í hönd? Stundum getur borgað sig að gleyma öllum áhyggjum og grípa í verkefni sem felur í sér slökun, áhyggjuleysi og fegurð.
#2 ~ Það að lita hjálpar fullorðnum að skerpa á einbeitingunni – en foreldrar hafa oft í mörg horn að líta og við VERÐUM að kunna að leysa mörg verkefni samtímis. Því miður dregur sá hæfileiki oftast úr einbeitingu. Það að lita er frábær afþreying sem skerpir á athyglisgáfunni og gerir þér kleift að hugsa aðeins um það sem þú ert að gera á því tiltekna augnabliki.
#3 ~ Það að lita er dásamleg leið til uppbyggilegrar sjálfstjáningar og er slakandi um leið; í heimi fullorðna fólksins er oft lítið um leiðir til að slaka á og sleppa takinu á streitunni. En það að lita er dásamlegt.
#4 ~ Ókeypis listaverk; ertu að leita að fallegri mynd til að lífga upp á forstofuna? Þú þarft ekki að púnga út formúu fyrir fallega eftirprentun í listaverkabúð. Hér að neðan má finna tengil á sjö vefsíður þar sem gnægt ókeypis mynstra er að finna. Þú verður svo stolt/ur af eigin sköpunarverki og það sem meira er, þú ræður litasamsetningunni!
Á vefnum er að finna milljónir mynstra sem hægt er að prenta út á fallegan pappír og lita að vild heima fyrir, en Amy hefur tekið saman sjö dásamlegar vefsíður sem bjóða upp á ókeypis mynstur og útlínuteikningar við allra hæfi. En eins og Amy bendir réttilega á, eru það ekki einungis mynstrin sem skipta máli heldur einnig gæði pappírs sem skipta máli.
Hér að neðan má lesa alla umfjöllun Amy af fræðsluvefnum Bright & Brainy þar sem einnig má sjá og skoða hvaða vefsíður bjóða upp á bestu útlínumyndirnar til niðurhals og útprentunar fyrir listafólk á öllum aldri!