Bleikir hlaupaskór voru algert „tabú“ nú dýrka ég þá.
Fyrir stuttu eignaðist ég fyrstu bleiku hlaupaskóna mína, glæsilega og netta Newton skó! Fyrir flestar konur þykir þetta ekki í frásögu færandi en litríkir skór hafa verið algert „tabú“ hjá mér alla tíð. Mér fannst eitthvað svo truflandi að sjá þá á fótunum á mér en kannski vildi ég bara ekki vekja athygli. Þessi skókaup mín þóttu svo merkileg að félagi minn hann Daníel Smári í Afreksvörum sem seldi mér skóna hringdi spes í manninn minn til að láta vita af þessum tímamótakaupum.
Gleðin með þessa skó er mikil og ástæðan fyrir þessum pistli er að ég vildi bara deila ánægju minni og vangaveltum með ykkur.
Það besta við þessa skó er að tilfinningin við að fara í þá er í raun sú sama og frjálsíþróttamaðurinn finnur fyrir þegar hann fer úr þunglamalegu joggskónum eftir upphitun og smeygir á sig léttu og fyrirferðalitlu gaddaskónum sínum. Persónulega finnst mér geggjað að geta verið berfætt í gaddaskónum, eitthvað með tengslin við brautina að gera. Fyrir þá sem ekki þekkja til eru gaddaskór léttir og nettir hlaupaskór með 6-7 járngöddum fremst. Slíkir skór pína hlauparann hreinlega til að fara vel upp á tærnar sem í flestum tilfellum verður til þess að hann hleypur miklu hraðar. Gaddaskór henta hins vegar ekki nema á tartanhlaupabraut og annað mjúkt undirlag. Því koma bleiku Newton skórnir að góðum notum á hröðum æfingum þar sem hraði, léttleiki, góð tilfinning fyrir undirlaginu og mjúkur- flæðandi stíll skiptir öllu máli.
Annar mjög svo frábær kostur við bleikuskóna er að þeir koma líka í hálfum stærðum ekki bara heilum, það er „must“. Fyrir suma skiptir þetta engu máli en fyrir aðra, og sér í lagi þá sem eru með mislanga fætur (þá á ég við lengd fótar fyrir neðan ökkla). Hlaupaskór verða nefnilega að passa fullkomlega svo tærnar merjist ekki og neglurnar detti af, þetta þekkja flestir hlauparar.
Þar sem þessir skór eru svolítið „racer-legir“ þá þarf að fara mjög rólega af stað í að hlaupa á þeim. Fyrst þóttu mér þeir mjög sérstakir, og trúið mér ég hef stigið ofan í nokkuð margartegundir af skóm um ævina. Helsti munurinn við þessa skó er að þeir nefnilega „pína“ þann sem í þeim er til að fara upp á tærnar og það að fara upp á tærnar er eins og áður hefur komið fram, nánast alltaf ávísun á meiri hraða og viljum við ekki alltaf meiri hraða ! Reyndar þarf hlauparinn að ná að koma mjöðmunum í rétta stöðu og halla sér fram svo líkaminn kljúfi vindinn betur, en málið er að þessir skór gera það einmitt líka. Ekki má gleyma því að kljúfa vindinn vel er nánast lífsnauðsynlegt á Íslandi hvort sem þú hleypur eða ekki.
Það er samt nauðsynlegt að hugsa vel um kálfana þegar maður er í svona hlaupahvetjandi skóm sér í lagi ef að háir hælar er daglegur skóbúnaður á móti hlaupaskónum. Nudda eða rúlla kálfana á kvöldin fyrir svefninn er góð regla.
Niðurstaða mín er hreinlega sú að bleiku Newton skórnir mínir eru einir af mest hraða- og hlauphvetjandi skóm sem ég hef átt. Þeir eru algerlega í flokki með gömlu, og þá meina ég gömlu, gaddaskónum mínum með gatinu á tánni sem ég hljóp alla bestu tímana mína í á árunum 1992 (ætlaði ekki að skrifa 2002) til 1995 og hjálpuðu mér meðal annars að ná í 3 gull og 1 brons á Smáþjóðaleikum 1993 og hlaupa 800m á 2:12,21 mín, 1500m á 4:22.95 mín og 3000 m á 9:28,17 mín og ef ég man rétt 5000m á 16:52,96 mín.
Fríða Rún Þórðardóttir, hlaupari