Að opna inn í sig
Enska orðið fyrir nánd er „intimacy“. Enskumælandi fólk talar stundum um að orðið þýði „in to me you see“. Það er nokkuð til í því. Nánd þýðir að liggja svo nærri mann- eskju að hún geti séð inn í þig – bókstaflega skynjað þinn innsta kjarna.
Við getum aldrei sýnt neinum lengra en inn í eigin opinberun – getum ekki farið með aðra þangað sem við höfum ekki þorað sjálf.
Í innsæinu erum við að opin-bera okkur. Að verða ber og opin. Að þora að vera ber og opin, því að við treystum hjartanu til að þola það.
Þess vegna veljum við innsæið til að vera í nánd við okkur sjálf.
Við viljum standa okkur svo nærri að við skynjum eigin tilvist af fullum krafti. Við viljum treysta okkur sjálfum til að þola skoðun; treysta okkur til að standa nógu nálægt okkur til að við náum að upplifa það sem við göngum í gegnum á hverri stundu – hvort sem það er yndisleg upplifun með ástvini eða erfitt uppgjör með andstæðingi.
Í öllum kringumstæðum er hægt að spyrja sig:
„Er ég í nánd gagnvart minni tilvist, þessum aðstæðum og þeim tilfinningum sem þær vekja hjá mér, núna? Er ég kærleiksríkt vitni gagnvart aðstæðunum?
Eða er ég huglægur dómari sem sér aðeins skortinn, þjáninguna; dómari sem leitar aðeins að afsökunum, skýringum, fjarvistarsönnunum ... dómari sem leitar að góðri sögu til að fóðra skortinn: „Þetta er að gerast vegna þess að ... þetta hefði aldrei gerst ef ekki hefði verið fyrir ... ef ég hefði gert svona og svona þá hefði þetta aldrei gerst ...““