Tómt er tilgangslaust markmið
Tilgangurinn er í eðli sínu forsenda innblásturs og ástríðu; kjölfesta tilveru okkar. Til- gangurinn er ástæða þess að við leggjum eitthvað á okkur í lífinu. Tilgangurinn er það sem sumir kalla leiðarljós, en ég vil meina að hann sé kjölfesta og verði þannig forsenda fyrir markmiðunum.
Geturðu velt fyrir þér, sem snöggvast, muninum á einstaklingi sem spilar fótbolta til að sigra andstæðinginn og öðrum sem gerir það af því að hann nýtur þess og vill hreyfa líkamann á fjölbreytilegan hátt?
Eða muninum á einstaklingi sem sinnir sjálfboðastarfi til að ná sér í félagslega stöðu gagnvart vinum sínum (af því að það er „virðingarvert“) og öðrum sem gerir það vegna þess að hann vill hjálpa fólki?
Þetta eru gjörólíkar forsendur. Sá sem spilar fótbolta til að sigra andstæðinginn getur auðvitað notið þess að spila og sá sem sinnir sjálfboðastarfi gerir vissulega gagn – en grunnforsendurnar eru samt sem áður allt aðrar.
Tilgangurinn er annar.
Og tilgangurinn er grunnforsenda sem mun alltaf lita það hvernig við gerum það sem við gerum.
„Guðni, hvernig veit ég hvort ég hef skýran tilgang í lífi mínu?“ spyrja margir.
Og svarið er einfalt:
„Þegar þú nýtur þín og nýtur þess sem þú ert að gera í augnablikinu en ert ekki að bíða eftir því að ná markmiðinu.“
Þegar við höfum tilgang njótum við markmiðanna í augnablikinu og ástæða lífs okkar verður ljós.