Hvað er það leiðinlegasta sem þú gerir? Mitt svar er: Að skúra heima og þrífa bílinn. Þetta eru hlutir sem ég fresta út í hið óendanlega og valda mér undantekningarlaust pirringi og hálfgerðu óþoli. Sem er óskynsamlegt því ég tel mér trú um að ég vilji eiga hreint heimili og hreinan bíl.
En auðvitað er málið miklu einfaldara. Af hverju leiðist mér að þrífa bílinn?
Af því að ég er leiðinlegur meðan á því stendur.
Ég fer í alls kyns hugarleikfimi áður en ég loksins dríf mig í verkið. Fyrst fresta ég því auðvitað í marga daga eða vikur, svo ríf ég mig niður fyrir það hversu skítugur bíllinn er orðinn og „af hverju ég geti nú ekki hugsað betur um hann dags daglega og svo vorkenni ég mér fyrir að þurfa að standa í þessu smávægilega verkefni sem mér finnst ég vera hafinn yfir því að ég eigi ekki að þurfa að verja tíma í svona lagað heldur frekar vera að skapa einhverja snilldina eða kenna jóga eða lesa eða bara njóta lífsins og ...“
Áður en ég fer og þríf bílinn er ég í margföldu viðnámi gagnvart verkefninu. Þess vegna dreg ég í lengstu lög að ganga í verkið (og auðvitað er bíllinn þá orðinn grútskítugur). Á meðan ég sinni verkinu veiti ég líka viðnám og nýt þess ekki fyrir fimm aura. Ég hætti að veita viðnám þegar verkinu er lokið og loks þá upplifi ég örlitla frelsisstund og stolt yfir því að hafa framkvæmt hið óframkvæmanlega. En sú dýrð varir ekki lengi. Næsti fasi tekur strax við og hann felur í sér að ég lofa sjálfum mér að þetta muni aldrei gerast aftur, að hér eftir muni ég ganga betur um bílinn, henda rusli jafnóðum og svo framvegis.
Sem ég geri auðvitað ekki, þannig að næst þegar ég næ að pína mig til að þrífa bílinn get ég líka rifið mig niður fyrir að hafa svikið fyrirheitin frá því síðast ...
Viðnámið er hrikalega öflugt tól til að tryggja að ég njóti lífsins aldrei til fulls. Viðnámið á sér margar ólíkar rætur og fjölþættar birtingarmyndir.
Og stundum eru lausnirnar einfaldar – ég get til dæmis farið með bílinn á þvottastöð og greitt öðrum fyrir að þrífa hann.