Púkinn á fjósbitanum
Mér er minnisstæð saga sem ég heyrði sem ungur maður af Sæmundi fróða. Sæmundur kom úr námi frá Sorbonne í Frakklandi og eins og stundum tíðkast með lærða menn þá voru margir sem álitu hann vera göldróttan. Sögusagnir um galdrakunnáttu hans fengu byr undir báða vængi þegar jörðin sem hann tók við blómstraði og búskapurinn dafnaði með meiri farsæld en tíðkaðist á öðrum jörðum í sveitinni.
Öfund sveitunganna varð svo mikil að ein- hverjir þeirra hófu að njósna um Sæmund. Og þeir urðu vitni að undarlegustu hlutum.
Á morgnana opnaði Sæmundur hlöðuna og njósnararnir sáu hann byrja að blóta og ragna af miklum krafti og ástríðu. Þá fóru þústir að myndast í heyinu og eftir svolitla stund breyttust þær í púka sem Sæmundur rak út í túnin til að yrkja þau og græða.
Að kvöldi dags sneru púkarnir aftur – og til að gera þá að engu aftur lagðist Sæmundur á hnén, en í þetta skiptið bað hann fyrir þeim með sínum sterkustu og áhrifamestu guðsorðum. Þeir hjöðnuðu niður í meðfærilega stærð og skreidd- ust aftur inn í hlöðuna.
Allt er orka. Allt annað er blekking. Orkan tekur við öllu sem að henni er beint og þess vegna liggur valdið í okkar eigin höndum. Við getum valið að hafa áhyggjur og blóta okkur sjálfum og lífinu í sand og ösku – eða við getum valið að beina ljósi okkar að uppvexti hins góða í kringum okkur.
Sæmundur ól sín skortdýr á böli – en þau hjöðnuðu í ljósi og kærleik.
Það sama gildir um okkar eigin gæludýr – skortdýrunum sem við veljum að fæða og klæða.
Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar – viljandi eða óviljandi. Að vakna til vitundar er upphaf ferðalags frjáls vilja.
Eina leiðin til að viðhalda vitund er að taka fulla og óskerta ábyrgð á eigin tilvist.