Að finna fyrir náð sinni og hlúa að henni
Við erum viljandi eða óviljandi. Í framgöngunni opinberast heimildin; við sýnum heiminum með gjörðum okkar hversu verðug við erum í eigin augum og biðjum heiminn um að skammta okkur velsæld eða vansæld eftir því.
Í innsæinu fylgjumst við með framgöngunni; finnum fyrir náð okkar og notum heimildina til að meta hversu mikla velsæld við erum tilbúin að leyfa okkur. Í innsæinu erum við full lotningar yfir því að vera á lífi; því að draga andann, sjá og heyra. Við þorum fyrir hornið, við treystum sjálfum okkur og heiminum og elskum allt sem er; þegar við dettum reisum við okkur umsvifalaust á fætur.
Í innsæinu skiljum við samhengi orsaka og afleiðinga; við dönsum í nýjum takti, njótum ásta með augnablikinu og dönsum með lífinu, dönsum eins og hafið gerir í sinni skýrustu framgöngu.
Í innsæinu skiljum við að allar manneskjur eru andlegar verur og að í þeim býr skortdýr sem lýtur lögmálum frumskógarins. Í stað þess að afneita þessari staðreynd og láta eins og ekkert sé beitum við okkar skærasta ljósi til að opinbera dýrið og gera það máttlaust – því að við ein vitum hversu sterkt ljós okkar getur skinið og hvers við erum megnug.