Ég gat eiginlega ekki fundið nógu góðan titil á þessa uppskrift. Hveitilaus súkkulaðikaka gerir þessari himnesku súkkulaðiköku bara ekki nægilega góð skil. Ég hef nokkrum sinnum gert kökuna og aðlagað hana örltíið gegnum tíðina en uppskriftin kemur upphaflega frá Nigellu. Ég treysti henni alltaf þegar kemur að súkkulaði, samanber þessa uppskrift.Kakan er mjög blaut, en líka létt í sér, næstum því eins og bökuð súkkulaðimús, enda kallar Nigella kökuna “Chocolate cloud cake“. Hún lyftir sér vel en fellur svo í miðjunni þegar hún kólnar. Miðjan er því upplögð til að fylla af einhverju góðgæti. Mér finnst fallegt að setja ber í miðjuna, en stundum þegar berin eru ekki upp á sitt besta er upplagt að léttþeyta rjóma og setja ofan á miðja kökuna, dusta svo smá kakódufti yfir eins og Nigella gerir.
Aðfðerð: Hitið ofn í 180 gráður (160 með blæstri). Bræðið smjörið og súkkulaðið við vægan hita. Takið af hitanum þegar bráðnað og bætið salti og vanillu saman við, leyfið að rjúka. Setjið tvö heil egg og fjórar eggjarauður í skál ásamt 1 dl af sykri og þeytið vel saman. Þeytið eggjahvíturnar ásamt 1 dl af sykri í annarri skál þar til stífþeyttar. Hellið brædda súkkulaðinu saman við eggjarauðublönduna og hrærið vel saman við. Bætið svo eggjahvítunum varlega saman við og hrærið hægt og rólega út í með sleif eða sleikju.
Hellið deiginum í ósmurt 24cm lausbotna smelluform og bakið í 35-40 mínútur. Kælið í a.m.k 1 klst áður en þið fjarlægið hringinn varlega af smelluforminu. Gott er að renna hníf meðfram hliðunum á forminu til að losa kökuna frá hliðunum. Toppurinn á kökunni á að vera svolítið sprunginn og skemmtilegur.
*ATH. Ég ber kökuna fram á botnum úr smelluforminu. Kakan er of laus í sér í viðkvæm til að hægt sé að hvolfa henni og fjarlægja botninn.
*ATH. Einnig er hægt að baka kökuna í eldföstu móti og bera fram heita eða volga með rjóma og/eða ís.
Hér finnur þú Eldhúsperlur.is á