Á liðnu ári var auglýst eftir þátttakendum hjá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands til að taka þátt í verkefni sem snýr að því að þýða matstæki sem metur kláða. Kláði er algengt og margslungið einkenni hjá ýmsum hópum, s.s. einstaklingum með ofnæmi, psoriasis, brunasjúklingum og fólki með langvinna nýrnabilun svo dæmi séu nefnd. Langvinnur eða endurtekinn kláði er erfitt einkenni sem getur haft margvísleg neikvæð áhrif á heilsutengd lífsgæði fólks, svo sem vegna sáramyndunar og truflunar á svefni. Þrátt fyrir það er kláði þó oft vanmetið einkenni og meðferðarúrræði við kláða eru ekki alltaf árangursrík. Því er mikilvægt að þróa frekari aðferðir til að meðhöndla einkennið. Til að meta árangur af meðferð við kláða er mikilvægt að hafa aðgang að áreiðanlegu og réttmætu matstæki (spurningalistum, mælikvörðum) sem meta einkennið. Það er hins vegar ekki auðvelt að meta kláða þar sem einkennið er huglægt og því ekki hægt að mæla það eins og t.d. blóðþrýsting. Algengt er að nota kvarða sem metur styrk kláða (t.d. 0-10 kvarði) en slíkur kvarði metur einungis eitt atriði í stað þess að meta heildstæð áhrif kláða. 5D kláðakvarðinn var þróaður af Mayo og samstarfsfólki í því skyni að búa til matstæki til að meta árangur af meðferð í klínískum rannsóknum. Hann hefur þó einnig reynst gagnlegur í klínísku starfi til að meta kláða og áhrif hans á einstaklinginn. Kvarðinn er einfaldur í notkun og tekur stuttan tíma að fylla hann út. Ekki er til heildstætt matstæki fyrir kláða á íslensku og því var ráðist í að þýða 5D kláðakvarðann yfir á íslensku með leyfi höfunda.
Kvarðinn metur alls fimm þætti kláða:
1) Hversu lengi kláðinn hefur varað
2) Hversu mikill kláðinn hefur verið
3) Hvort kláðinn hafi breyst (minnkað eða aukist)
4) Áhrif kláða á þætti svo sem svefn, vinnu og heimilisstörf
5) Útbreiðslu kláða
Tímaramminn er undanfarinn hálfur mánuður
Þýðing á kvarðanum er meistaraverkefni Þórunnar Sighvatsdóttur við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands undir leiðsögn Sigríðar Zoëga og Brynju Ingadóttur sem báðar eru dósentar við deildina. Þórunn hefur margra ára reynslu af hjúkrun brunasjúklinga og í starfinu fann hún að það vantaði betri aðferðir til að meta kláða og áhrif meðferðar við kláða á markvissan hátt. Hún átti því frumkvæði að því að þýða mælitækið og er nú að leggja lokahönd á verkefnið.
Við þökkum félagsmönnum Astma- og ofnæmisfélags Íslands hjartanlega fyrir þátttökuna við þýðingu 5D kláðakvarðans.
Það er von rannsakenda að hann nýtist jafnt í klínísku starfi sem og í rannsóknum til að bæta mat og meðferð við kláða.
Heimildir:
Elman, S., Hynan, L. S., Gabriel, V., & Mayo, M. J. (2010). The 5‐D itch scale: a new measure of pruritus. British Journal of Dermatology, 162(3), 587-593.
Silverberg, J. I., Hinami, K., Trick, W. E., & Cella, D. (2016). Itch in the general internal medicine setting: a cross-sectional study of prevalence and quality-of-life effects. American Journal of Clinical Dermatology, 17(6), 681-690.
Takahashi, N., Yoshizawa, T., Okubo, A., Kumagai, J., Kawanishi, H., Tsuchiya, S., ... & Ebata, T. (2018). Usefulness of the Japanese version of the 5-D itch scale for rating pruritus experienced by patients undergoing hemodialysis. Renal Replacement Therapy, 4(1), 1-10.
Höfundur: Sigríður Zoega
Dósent við Hjúkrunarfræðideild og sérfræðingur í hjúkrun á Landspítala.