Sósan er stjarnan í þessum rétti og ég mæli með að tvöfalda uppskriftina. Ekki láta langan hráefnislista hræða ykkur, öll innihaldsefnin má finna í næstu verslun. Svo gildir hið fornkveðna að svona sósur þarf aðeins að smakka áfram. En útkoman er algjört dúndur! Prófiði bara.
Byrjið á að sjóða quinoað – Mér finnst gott að skola quinoa í fínu sigti undir köldu vatni áður en ég sýð það, það minnkar aðeins biturt bragðið sem getur verið af því. Setjið vatnið í pott ásamt kraftinum og hleypið suðunni upp. Hellið quinoa út í og hrærið aðeins. Lækkið hitann og látið sjóða undir loki við vægan í 15 mínútur. Takið þá lokið af og leyfið að sjóða þar til allur vökvinn er horfinn, u.þ.b 10 mínútur. Takið þá af hitanum og hrærið í með gaffli.
Hitið ofn í 200 gráður. Flysjið og skerið sætu kartöfluna í teninga. Veltið upp úr olíu og kryddið með salti og pipar, setjið í fat og bakið í 15 mínútur. Skerið þá brokkolíið smátt og setjið hjá sætu kartöfluteningunum, kryddið með salti og pipar, aðeins meiri olíu og bakið áfram í 15 mínútur. Á meðan er upplagt að gera sósuna. Setjið allt hráefnið í blandara eða matvinnsluvél og vinnið vel saman. Smakkið ykkur áfram þar til ykkur finnst sósan góð, ég vil t.d. hafa mína talsvert sterka með vel af chilli og engifer og bæti aðeins við það. Allt fer þetta eftir smekk. Ég mæli með að gera tvöfalda uppskrift af sósunni.
Setjið skálina svo saman: Quinoa fer í botninn, svo grænmetið þar ofan á ásamt vel af sósunni góðu og skreytt með sesamfræjum, vorlauk og fetaosti.