Ég gat reyndar ekki hugsað mér í þetta skiptið að gera hefðbundna bolognese sósu þó hún sé góð og gild og ákvað því að gera létt og bragðmikið spaghetti með risarækjum. Rétturinn var mjög bragðgóður og var sá litli mjög hrifinn og borðaði vel ! Þetta er kannski dálítið sumarlegur réttur, en hvað er betra í mínus fjórum en þegar eldhúsið ilmar eins og veitingastaður um hásumar í ítölskum strandbæ?
Rækjurnar afþýddar, hreinsaðar og skornar í tvennt eftir endilöngu. Þerraðar á eldhúspappír og kryddaðar með salti og pipar. Spaghetti soðið eftir leiðbeiningum á pakkanum. Á meðan það sýður eru laukurinn og hvítlaukinn steiktur á pönnu í ca. 3 msk af ólífuolíu við meðalhita í um 3-4 mínútur. Tómötunum bætt út á og hitinn hækkaður og rækjurnar settar á pönnuna. Steikt í 2-3 mínútur eða þar til rækjurnar eru orðnar bleikar. Tómatarnir kramdir aðeins með sleifinni eða spaðanum. Þá er sítrónusafanum bætt út á auk steinseljunnar. Saltað og piprað.
Sigtið vatnið frá spaghettíinu þegar það er al dente, en takið frá 1 bolla af soðvatninu. Spaghettíið sett á pönnuna og blandað saman við rækjurnar. Ég sett alveg 1 bolla af soðvatninu með og skreytti svo með steinselju og reif smá parmesan yfir. Munið svo að smakka til með salti og pipar. Ég bar spaghettíið fram með smá klettasalati og dreifði örlitlu af söxuðum chilli yfir fyrir fullorðna fólkið.
Það væri sennilega ekki úr vegi að drekka glas af ísköldu dálítíð þurru hvítvíni með þessum rétti..
Uppskrift af vef eldhusperlur.com