Rekja má um þriðjung allra dauðsfalla á Íslandi til hjarta- og æðasjúkdóma, og eru ¾ þeirra vegna kransæðasjúkdóms. Margir áhættuþættir kransæðasjúkdóms eru vel þekktir eins og reykingar, háþrýstingur, hækkaður blóðþrýstingur og blóðfitur, sykursýki, offita og hreyfingarleysi. Kransæðasjúkdómur er líka algengari í vissum fjölskyldum og hefur ættlægni sjúkdómsins lengi verið þekkt. Ert þú í áhættuhópi að fá kransæðasjúkdóm og hvað getur þú gert til að draga úr þeirri áhættu? Í Kransæðabókinni er að finna ítarlegar upplýsingar um þennan algenga sjúkdóm sem er eitt stærsta viðfangsefni íslensks heilbrigðiskerfis,m.a. um orsakir, einkenni, greiningu, meðferð og forvarnir. Í bókinni eru einnig ítarlegir kaflar um mataræði og þunglyndi en sýnt hefur verið fram á að þunglyndi getur aukið áhættu á kransæðasjúkdómi.
Kransæðabókin er ríkulega myndskreytt með teikningum og ljósmyndum eftir íslenska listamenn. Bókin kemur í verslanir Hagkaups og Bónus 11. nóvember og kostar 5.900 kr.
Eðlilegt hjarta í fullorðnum er á stærð við tvo hnefa og vegur í kringum 0,5% af líkamsþyngd eða 300 gr. hjá körlum og 200 gr. hjá konum.
Eðlilegur púls er í kringum 60-80 slög á mínútu og því slær hjartað um 100 þúsund slög á sólarhring, eða í kringum 2,5 þúsund milljarða slaga á meðalævi.
Í hvíld dælir meðalhjartað 5,5 L/mín en allt að 8 lítrum hjá vel þjálfuðum íþróttamönnum. Við áreynslu eykst dælugetan margfalt, eða hátt í 20 L/mín, og púlsinn getur slagað hátt í 200 slög/mín. Á sólarhring dælir hjartað því hátt í 10.000 L sem nægir til að fylla hátt í 100 meðalstór (120 L) baðkör.
Nánari upplýsingar veitir: Guðný Helga Herbertsdóttir, s: 825-3838.