Að breyta hegðun, ekki breyta þér - hugleiðing dagsins
Já, vel á minnst: af hverju viltu lifa í myrkri og spennu?
Allir eru eins og þeir eru af því að þeir vilja vera eins og þeir eru. Lestu þessa setningu aftur, hún er flókin en einföld:
Allir eru eins og þeir eru af því að þeir vilja vera eins og þeir eru.
Þeir hafa viljað það til sín og verndað það með kjafti og klóm, með athöfnum sínum, aðgerðum og aðgerðaleysi, með orðum sínum og hugsunum. Af því að þeir vilja það – þeir hafa viljað það til sín, stundum viljandi og stundum óviljandi. Þræta þeirra er marklaus því að sannanirnar eru augljósar öllum sem sjá vilja. Umhverfið sér alltaf til okkar, þótt við höldum annað, rétt eins og strúturinn stendur nánast allur upp úr sandinum þótt hann sjái það ekki sjálfur.
Það verður alltaf erfitt að sjá fótsporin sem við stöndum í.
Þegar þú tekur sannarlega ábyrgð á því hvar þú ert og því að hafa viljað þig þangað – þá fyrst geturðu viljað þig annað.
Allir eru eins og þeir eru af því að þeir vilja vera eins og þeir eru. Þeir viljuðu sig þangað. Þú verður að koma til að fara – þú verður að mæta í eigin mátt og ábyrgð til að breyta einhverju. Það er byrjunin, það er þitt val, þinn vilji.
Við erum að tala um að breyta hegðuninni – ekki breyta þér.
Ekki reyna að vera öðruvísi. Í því felst skortur. En breytingar á hegðun og upplifun munu eiga sér stað um leið og þú mætir í augnablikið.
Það er ekki hægt að snúa við, svona almennt í lífinu. Það er aðeins hægt að leggja af stað. Svo er hægt að setjast niður með hendur í skauti eða fara krókaleiðir og verjast hjartanu eins og mögulegt er.
Þess vegna geturðu valið að leggja af stað – núna. Og elskað þig samt, af öllum mætti.