Að sigra fjall - hugleiðing dagsins
Afreksmaður án tilgangs
Ég þekki stórkostlegan afreksmann sem hefur áorkað meiru en flestir sem ég þekki. En stundum verður hann algerlega tilgangslaus.
Hann verður það alltaf þegar hann hefur „sigrað fjall“. (Af hverju er talað um að sigra fjall? Hverjum datt í hug að hægt væri að sigra fjall? Að fjall væri í viðnámi og reyndi að hamla manni för?)
Einu sinni hitti ég hann á kaffihúsi og hef sjaldan séð niðurdregnari mann.
– Af hverju ertu að vorkenna þér? spurði ég.
– Guðni, ég er búinn að ná öllum mínum markmiðum. Ég var að koma úr mestu fjallgöngu lífsins.
Hann hafði varið gríðarlegum tíma og orku í að sigra risastórt fjall í Suður-Ameríku; hann drap sig næstum á því að komast upp á tindinn; hann var fjarverandi frá konu, fjölskyldu og börnum á meðan hann sinnti þessu ástríðufulla verkefni ... og hvað gerðist?
Hann fann enga hamingju.