Að skilja sinn stað í náttúrunni - Guðni og hugleiðing á föstudegi
Að skilja sinn stað í náttúrunni
Fyrr eða síðar stöndum við frammi fyrir einfaldri spurningu:Treystum við á lögmál tilverunnar eða ekki? Ef við treystum því að sólin komi upp á morgnana og næri blóm og tré og seli og ánamaðka með geislum sínum, ef við treystum því að þykkir skýjabakkar hafi í för með sér rigningu og að flóð og fjara séu í samhengi við afstöðu tungls til jarðar, og við treystum því að níu mánuðum eftir getnað fæðist barn og treystum því að ef við köstum steini í vatn þá myndist ölduhringir sem fyrst stækki en taki svo smám saman að réna uns vatnið er aftur kyrrt – ef við treystum þessu öllu og trúum að alls kyns slík lögmál ríki í náttúrunni – af hverju viljum við ekki trúa því að okkar tilgangur sé að lifa í friði, í ljósi, í velsæld og allsnægtum?
Að ljós sólarinnar sé okkur ætlað? Að ljósið búi líka í okkur?
Heitbindingin á heima í hjartanu. Þegar heitbindingin byggir á sannri heimild þinni til vel- sældar – þegar þú trúir því að þú megir uppljómast – þá fyrst geturðu farið í upplýsingasafnið þar sem búa nú þegar allar upplýsingar um það hvernig á að lifa heilnæmu og uppljómuðu lífi. Þá fyrst hefurðu heimild til að meðtaka þær upplýsingar og byggja lífið á þeim.
Af hverju viljum við trúa því að örlög mannsins séu að búa við streitu, kvíða, ótta, höfnun, afbrýðisemi, dómhörku, meðvirkni, reiði, biturð, græðgi, eftirsjá, vonbrigði, niðurrif, ofbeldi og átök við annað fólk og heiminn?
Heitbindingin er að treysta eigið ljós – styrkja það og leysa það úr læðingi. Heitbindingin er að frelsast til þess að í þér búi frjáls vilji og sannfærast um að þú búir yfir valdinu til að velja ást og frið.
Heitbindingin er að leyfa hjartanu að gefa þér styrk til að ganga fyrir horn og þora að vera hræddur.
Því að hjartað er kjarninn. Hjartað er sólin.Hjartað er kjarninn í sólinni. Opið hjarta er opin heimild. Er þá eitthvað að óttast?