Allir eru eitt og hið sama - Guðni og hugleiðing á mánudegi
Við erum allt.
Allir eru allir hinir.
Hinir eru við.
Allir eru eitt og hið sama.
Þetta er það sem uppljómaðar manneskjur skynja og skilja.
Þetta er það sem allir geta öðlast.
Næringin í þessum augnablikum þakklætis er fullkomin – full af ríku ljósi.
Þakklæti er líka að skilja með hjartanu og öllum frumum líkamans að höfnun er einfaldlega viðnám gagnvart augnablikinu. Flestir upplifa höfnun persónulega – þeir upplifa hana þannig að aðrir hafni þeim. En það er bara ekki hægt. Höfnunin liggur aðeins hjá okkur – hvergi annars staðar en í okkar eigin viðbrögðum og viðhorfum til eigin sjálfsmyndar. Höfnunin getur ekki verið persónuleg; annað fólk getur ekki hafnað þér því að höfnunin getur ekki komið frá öðrum en þér, því upplifunin er öll þín.
Rétt eins og þú getur aldrei orðið reiður út í neinn nema þig. Þeir sem þú velur að vera reiður við eru staðgenglar sem þú notar til að viðhalda blekkingunni og vörninni; staðgenglar sem þú þarft að nota því að skortdýrið vill alltaf vera fórnarlamb og ekki beina reiði í eigin garð.
Þú berð alltaf fulla ábyrgð á þínum tilfinningum.
Þegar þú hafnar þér ekki þá getur enginn annar hafnað þér. Þegar þú þakkar fyrir hvert augnablik án þess að dæma það muntu heldur aldrei upplifa neina höfnun.