Athygli er ljós,orka,kærleikur og vitund - Guðni með hugleiðingu dagsins
Athygli er ljós, orka, kærleikur og vitund.
Athygli er alls ekki hugsanir okkar og ekki það að einbeita sér. Athygli er tær vitund, algerlega óháð nokkru öðru í okkur eða veröldinni. Samt er gott að grípa til veraldlegra líkinga til að skilja málið betur:
Þegar þú setur nýja rafhlöðu í vasaljós færðu sterkan og skæran geisla sem hægt er að beina hvert sem er.
Geislinn tekur enga afstöðu – hann skín jafnt á allt sem þú beinir honum að. Ljósið dreifist þegar þú stækkar skerminn með sama rafmagni og sömu perustærð og það varpar minni birtu á stærra svæði. Þegar rafhlöðurnar byrja að dofna þá minnkar ljósið.
Vasaljósið er einföld en prakkaraleg samlíking vegna þess að athygli okkar lýtur nákvæmlega sömu lögmálum. Þegar við erum full af ástríðu og elju – rafmagni og lífsafli – þá getum við beint athygli okkar í hvaða farveg sem er og allt sem við vörpum ljósi á vex og dafnar; það upplýsist eða birtist. Líka neikvæðni og illgresi, því í gremju og reiði getur falist mikil ástríða og elja.
Hvernig dreifist ljósið okkar? Hvernig rýrum við skærleikann í vasaljósinu? Við gerum það með því að dreifa ljósinu á of mörg svið í lífinu og innra með okkur, með því að næra sálina með lélegum rafhlöðum, næra líkamann of mikið, of lítið eða með lélegri næringu. Með því að vera fjarverandi, ekki með sjálfum okkur, núna; föst í fortíð sem hefur aldrei verið til, föst í framtíð sem verður hugsanlega aldrei, föst í hugsunum, föst í niðurrifi í eigin garð og annarra.
Við festumst í vítahring fjarverunnar þar sem við notum veraldlega hluti til að þurfa ekki að njóta samvista við okkur sjálf.