Fara í efni

Á að breyta áfengislöggjöfinni? Umsögn Svans Sigurbjörnssonar læknis

Umsögn vegna frumvarps (Þingskjal 13 — 13. mál.) um rýmkum laga um verslun með áfengi.[i]
Á að breyta áfengislöggjöfinni? Umsögn Svans Sigurbjörnssonar læknis

Umsögn vegna frumvarps (Þingskjal 13  —  13. mál.) um rýmkum laga um verslun með áfengi.[i]

Megin atriði frumvarpsins: Leyfa á sölu alls áfengis handhöfum smásöluleyfis handa öllum yfir 20 ára að aldri. Áfengi yfir 22% þarf að vera „geymt afmarkað frá annarri söluvöru á bak við afgreiðsluborð eða í sérrými innan verslunar.“ „Afgreiðslutími skal ekki vera lengri en frá kl. 9.00 að morgni til kl. 20.00 að kvöldi. Starfsmenn sem afgreiða áfengi mega ekki vera yngri en 18 ára.“[ii] „Ráðherra kveður nánar á um ...“ tilhögun mála í reglugerð. Áfengisverslun leggst af hjá ríkinu og ÁTVR verður að TVR.

Ákvörðunin:

Í vel ígrundaðri pólitískri ákvörðun[iii] koma einkum þrír þættir inni í ákvörðunarferlið:

  1. Hver er þekkingarþátturinn?
  2. Hvernig á að meta viljaþáttinn (vilji þjóðarinnar)?
  3. Hvaða siðferðilegu meginlögmál koma til álita þegar málið er ígrundað?

Þekkingarþátturinn[iv] er eftirfarandi samkvæmt fjölmörgum rannsóknum:

  1. Aukið framboð á áfengi þýðir aukin neysla áfengis í  heildina.[v] Eftir að bjórinn var leyfður 1989 og barir opnuðu víða í kjölfarið ásamt aukinni neyslu léttvína fór neysla áfengis úr 4.3 L/íbúa árið 1980 í 7.5 L/íbúa árið 2007.[vi]  Rannsóknir sýna að einkavæðing sölunnar eykur enn neysluna.[vii]

Það þýðir að dagdrykkja mun aukast sem eykur:[viii]

  • Fjölda fólks með áfengissýki (alkóhólisma)
  • Fjölda áfengissjúkra með langvinn heilsufarsvandamál[ix] eins og:
  1. Skorpulifur – leiðir oft til dauða. Þarfnast lifrarígræðslu.
  • Sást sjaldan á árum bjórbannsins (fyrir 1989) sem var einstakt í heiminum.[x]
  • Tíðni hefur aukist úr 9.9 í 41.7 tilvik árlega (á 300 þús. manns) frá síðari hluta 10. áratugarins til ársins 2007.[xi]
  1. Heilarýrnun – skert vitræn geta og minni. Næringarskortur, tannskemmdir.
  2. Tauga- og vöðvaskemmdir – föll, brot, örorka.
  3. Langvinn geðræn vandamál.
  4. Áfengistengd krabbamein (í munni, koki, vélinda, barka, lifur, ristli, brjóstum og brisi)
  5. Brisbólgur (Bæði bráðar og langvinnar. Áfengi er algengasta orsökin).
  • Fjölda veikindadaga frá vinnu og fjölda fólks á örorku.
  • Fjölda brotinna fjölskyldna og vanrækslu barna.
  • Fjölda þeirra sem leiðast út í önnur fíkniefni.
  • Fjölda þeirra sem leggjast inn á Bráðamóttöku LSH vegna bráðrar áfengiseitrunar.
  • Fjölda tilvika þar sem áfengi er þáttur í sjálfsvígstilraunum? (með í um 50% tilvika)[xii]
  • Fjölda óhappa og slysa (öðrum en vegna aksturs).

Aukinn fjöldi tilvika drykkju við akstur

  • Aukinn fjöldi bílslysa vegna áfengis. Fötlun og dauði.

Fleiri áfengisfíklar falli í bindindi? og eigi styttri pásur en ella?

Aukið ofbeldi í þjóðfélaginu

  1. Heimilisofbeldi, sérstaklega hið kynbundna og andlegt ofbeldi.
  2. Tilhæfulausar árásir á vegfarendur (mikið vandamál í miðbæ Reykjavíkur þar sem vínveitingastaðir eru flestir).
  3. Kynferðisofbeldi.

Aukin útbreiðsla kynsjúkdóma, sérstaklega meðal ungs fólks.

Fósturskemmdir (Fetal alcohol syndrome) og aukinn fjöldi snemmfæðinga.

  • Samlegðaráhrif alls að ofan til stóraukins kostnaðar fyrir ríkið (heilbrigðiskerfið) og aukins álags á bráðaþjónustu, legudeildir, löggæslu og félagslega kerfið.
  1. Aukin unglingadrykkja? Einkageirinn myndi líklega auglýsa meira og fegra áfengisneysluna.[xiii] Unglingadrykkja er lægst á Íslandi í allri Evrópu og leggjast þar ýmsir þættir saman, m.a. aðhaldssamasta löggjöfin um sölu áfengis. Önnur ríki líta á okkur sem fyrirmynd í þessum efnum.ii
  2. Líklega ósérhæfðari og lélegri þjónusta í heildina við sölu áfengis.
  3. Góð fræðslustarfsemi og forvarnarstarf ÁTVR legðist af.
  4. Mögulega minna vöruúrval af öðrum vörum í 24h búðum með takmarkaðan vörufjölda.
  5. Betra aðgengi að áfengi á höfuðborgarsvæðinu og stærstu bæjum en ekki endilega á landsbyggðinni þar sem litlar sérverslanir með áfengi myndu ekki bera sig. Það yrði lítið úrval áfengis í litlum matvöruverslunum sem hefðu lítið pláss. Það kæmi einnig niður á úrvali annarrar vöru.
  6. Einkaaðilar fengju hinn mikla gróða af áfengissölunni í stað þess að ríkið noti hann í heilbrigðiskerfið. Hækkun prósentu í forvarnir dygði skammt. Alls kyns áhrif á verslun og viðskipti - sjá greinagerð með frumvarpi.

Viljaþátturinn:  Hvernig á að meta vilja þjóðarinnar?

  • Fyrst að finna hver hann er
    • Líta á skoðanakannanir (Fbl. lét kanna afstöðu landsmanna í mars 2015 og janúar 2016).
    • Hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um málið sem væri ráðgefandi fyrir Alþingi.
    • Halda vel undirbúna þjóðfundi t.d. samkvæmt módeli Fiskins (nokkurra daga þing).
  • Meta hvað eigi að gera við viljann
    • Það er ekki víst að hann endurspegli upplýsta ákvörðun, sérstaklega ef að umræða fyrir ráðgefandi þjóðaratkvæði væri lítil og illa undirbúin, eða ef að um óformlega könnun væri að ræða án rökræðu á undan.
    • Ef að þekkingarhlutinn leiðir í ljós að veruleg verðmæti kynnu að skaðast við rýmkun áfengislaganna er ekki víst að vilji meirihluta á nafni aukins sjálfræðis ættu að gilda. Hins vegar ætti þjóð að hafa frelsi til að velja fyrir sig þó að hún leggi sig í hættu.
    • Mikilvægt að rökræðuferli fái að njóta sín fyrir mögulega þjóðaratkvæðagreiðslu, annars er erfitt að sættast við almannavilja sem leggur í heilsufarslegar hættur til að auka frjálsræði þeirra sem drekka áfengi og verslunarfrelsi kaupmanna.
    • Almennt vilja þingmenn fara eftir því sem þekking þeirra og samviska býður þeim en í málum sem þeir komast ekki að neinni einni afgerandi niðurstöðu, getur vilji kjósenda skipt talsverðu máli.

 

Tvær kannanir Fbl: „Hringt var í 1.158 manns þar til náðist í 801 samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 26. og 27. janúar. Svarhlutfallið var 69,2 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembi­úrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu og aldri. Spurt var: Finnst þér að það eigi að heimila sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum? Alls tóku 90 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar. „[xiv]

Tvær kannanir í byrjun árs 2017 sýna svipaðar niðurstöður.  Heldur eykst andstaðan í síðustu könnun MMR 10-15. febrúar 2017.

Siðferðilegi þátturinn - meginlögmálin:

  1. Einstaklingsfrelsi.  Eru það mannréttindi að vera frjáls undan afskiptum ríkisins gagnvart sölu á áfengi?  Er ríkið að skerða óeðlilega neikvæða[xv] frelsið (frjálsræðið)?
  2. Verslunarfrelsi[xvi]
  3. Meira frelsi til að versla áfengi ,en
  4. Mögulega skert vöruúrval annarra vara í litlum búðum. (það selt sem selst best).
  5. Verndun barna - hvað segir það börnum um eðli áfengis að það sé í öllum matvörubúðum?
  6. Verndun áfengissjúkra.  Með því að hafa ákveðið aðhald og þrengja hér neikvæða frelsið (í núverandi mynd) eykst jákvæða frelsið, þ.e. vald þeirra yfir eigin gjörðum og farsæld.
  7. Þjóðfélagsleg skilaboð um áfengi til allra - aukið framboð normaliserar áfengisnotkun.

---------------------------------------

Niðurstaða mín er skýr:  Áfengislögin á ekki að rýmka. Óþægindi sumra vegna skerts verslunarfrelsis í núverandi fyrirkomulagi eru ásættanleg miðað við þau umfangsmiklu neikvæðu áhrif sem aukin áfengisneysla hefði í för með sér í kjölfar aukins framboðs.  Skerðing á þessu ytra/neikvæða frelsi veitir fullt af fólki meira innra/jákvætt  frelsi yfir lífi sínu og heilsu.  Áfengi er ekki matvara og meðalhóf þess er vandratað.  Ríkið hefur mikil tækifæri til að hafa áhrif á heilsu þjóðarinnar.  Við þurfum ekki að kalla yfir okkur frekari heilsufarsvandamál með auknu verslunarfrelsi sem er ekki aðkallandi breyting. Neysla og sala áfengis kallar á gott jafnvægi frelsis og varúðar sem er nú til staðar og er óvarlegt að raska.

Svanur Sigurbjörnsson læknir, sérfræðingur í lyflækningum og klínískri eiturefnafræði.

Kópavogi 2. febrúar 2016  með litlum breytingum 24. febrúar 2017                                                          

---

Umsögnin er byggð á minnisblaði frá 16. janúar 2016 sem höfundur sendi alþingismönnum í netpósti.  Í þessari útgáfu í formi umsagnar er mikilvægum upplýsingum bætt við, rökstuðningur styrktur og heimildaskrá (með útskýringum) aukin að magni og gæðum.

Heimildir og nánari útskýringar:

[i] Frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi [...]. Flutningsmenn Vilhjálmur Árnason og fleiri. http://www.althingi.is/altext/144/s/0017.html

[ii] Það skýtur nokkuð skökku við að 18-20 ára einstaklingar geti afgreitt áfengi skv. þessu, en megi ekki kaupa það sjálfir. Áfengislöggjöf á Íslandi er hve ströngust í Evrópu hvað aldurstakmark kaupanda varðar því að nær hvergi er það hærra en 18 ára annars staðar. Á móti kemur að hvergi er hlutfall unglinga sem drekka áfengi lægra í Evrópu en hér (17%) eins og fram kemur í European School Survey Project on Alcohol and Other Drugs (ESPAD-skýrslan) frá 2011, sem er byggð á svörum rúmlega 100 þúsund unglinga í námi frá 36 ríkjum í Evrópu. (Aftur 76% í Danmörku) http://www.espad.org/Uploads/ESPAD_reports/2011/The_2011_ESPAD_Report_FULL_2012_10_29.pdf

Hér er tafla úr ESPAD skýrslunni sem sýnir prósentu unglinga varðandi nokkra mælikvarða á neyslu áfengis og tóbaks. Litirnir tákna breytingu (>3%) frá 2003. Rauður - hækkun, gulur - óbreytt, grænn - lækkun, án litar - samanburð vantar.
Ísland er með bestu tölurnar í tóbaksleysi og áfengisleysi og undir meðallagi í magni áfengis hjá þeim sem drekka.