Fara í efni

Líf er því miður ekki sama og líf

Ey­mund­ur Ey­munds­son þjáðist frá unga aldri af mikl­um kvíða og síðar fé­lags­fælni. Eft­ir að hann áttaði sig á því hvers kyns var, 38 ára gam­all, hef­ur Ey­mund­ur unnið öt­ul­lega að því að aðstoða fólk með geðrask­an­ir og sinna for­vörn­um.
Líf er því miður ekki sama og líf

Ey­mund­ur Ey­munds­son þjáðist frá unga aldri af mikl­um kvíða og síðar fé­lags­fælni. Eft­ir að hann áttaði sig á því hvers kyns var, 38 ára gam­all, hef­ur Ey­mund­ur unnið öt­ul­lega að því að aðstoða fólk með geðrask­an­ir og sinna for­vörn­um.

Líf er ekki sama og líf – því miður. Líf fólks með geðrask­an­ir er enn ekki sama og líf heil­brigðra úti í sam­fé­lag­inu, seg­ir Ey­mund­ur, fimm­tug­ur Ak­ur­eyr­ing­ur, í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins. Hann bæt­ir við að þótt mikið hafi breyst á síðustu árum sé enn langt í land. „Maður skyldi ætla að all­ir gerðu sér grein fyr­ir því að höfuðið er hluti lík­am­ans, en stund­um virðist svo ekki vera,“ seg­ir Ey­mund­ur. „Sjúk­dóm­ur sem á upp­tök inni í höfðinu og er ósýni­leg­ur er ekki jafn viður­kennd­ur og aðrir. Það er mikið talað um ástandið á Land­spít­al­an­um en hér á Ak­ur­eyri þarf líka að setja meiri pen­inga í geðdeild sjúkra­húss­ins; hér þarf að efla starfið eins og víða ann­ars staðar á lands­byggðinni. Það geng­ur ekki að fólki í sjálfs­vígs­hættu sé vísað í burtu. Hjartveik­ur maður eða fót­brot­inn lend­ir ekki í því af þeirri ástæðu að vegna fjár­skorts séu deild­ir ekki alltaf opn­ar.“

Höf­um bjargað manns­líf­um

Ey­mund­ur hef­ur verið áber­andi í umræðu um geðrask­an­ir und­an­far­in miss­eri. Hann stofnaði ásamt fleir­um Gróf­ina, geðvernd­armiðstöð á Ak­ur­eyri, haustið 2013 og seg­ir starfið þar hafa bjargað manns­líf­um.

„Við þurft­um ekki að finna upp hjólið. Ég starfaði áður með Hug­arafli í Reykja­vík og við erum með svipað mód­el hér. Á Ak­ur­eyri voru ekki starf­andi fé­laga­sam­tök vegna geðsjúk­dóma á þess­um tíma; dag­deild geðdeild­ar var lokað 2009 en tveim­ur árum síðar hófu fag­menn og not­end­ur þjón­ust­unn­ar að hitt­ast og Gróf­in varð til í fram­haldi af því.“

Best væri, seg­ir Ey­mund­ur, að hann þyrfti ekki að tala jafn mikið um geðrask­an­ir og raun ber vitni. „Ég vildi helst að ég þyrfti ekki að segja mína sögu held­ur gæti lifað líf­inu eins og hver ann­ar, en ég gekk í gegn­um þetta og lifði af, sem var ekki sjálf­gefið. Mér finnst nauðsyn­legt að sam­fé­lagið vakni til lífs­ins; að meiri pen­ing­ar verði sett­ir í for­varn­ir og starf­semi geðdeilda. Geðrask­an­ir eru svo langt á eft­ir öðrum sjúk­dóm­um og við höf­um misst svo marga að ég verð að segja frá.“

Ey­mund­ur seg­ir for­varn­ir gíf­ur­lega mik­il­væg­ar og í raun spara mikið fé. „Hvað kost­ar manns­líf? Auðvitað kosta for­varn­ir, en þeim pen­ing­um er vel varið og spara mikið í framtíðinni. Það var ótrú­legt þegar í ljós kom um dag­inn að Hug­arafl ætti að fá lægri styrk frá rík­inu en áður. Þetta er spurn­ing um ör­fá­ar millj­ón­ir! Ráðamenn verða að kynna sér hvað þessi fé­laga­sam­tök eru að gera og verða að setja meiri pen­inga í mála­flokk­inn. Það þarf að bera meiri virðingu fyr­ir fólki sem hef­ur gengið í gegn­um þessa erfiðleika, hlusta bet­ur á það og for­gangsraða rétt.“

Hann seg­ir mikla for­vörn í því að fólk sem hef­ur glímt við geðrask­an­ir tjái sig. Hef­ur til dæm­is sjálf­ur, í fé­lagi við fleiri, farið í alla grunn­skóla á Ak­ur­eyri og ná­grenni síðustu ár og rætt við bæði kenn­ara, annað starfs­fólk og nem­end­ur. Gest­irn­ir hafa í öll­um til­fell­um fundið fyr­ir miklu þakk­læti.

„Fólk sem hef­ur glímt við geðrask­an­ir er van­met­inn hóp­ur og get­ur nýst vel í að byggja upp sam­fé­lagið með því að miðla af reynslu sinni. Við höf­um farið í 9. bekk og krakk­arn­ir grípa vel það sem við segj­um og spyrja mikið. Mér finnst að þau ættu að vinna mark­visst að ým­is­kon­ar verk­efn­um í kjöl­farið og meiri sam­fella ætti að vera í þess­um mál­um í skóla­kerf­inu. Ekki bara að ein­hver komi og fari.“

Al­kunna er að miklu meiri lík­ur eru á að börn sem líður illa verði fyr­ir einelti en önn­ur. „Þess vegna er svo mik­il­vægt að fræða börn­in. Fæst þeirra gera sér í raun grein fyr­ir því hvað einelti er og best væri ef bæði gerend­ur og þolend­ur einelt­is kæmu í skól­ana og töluðu við börn­in. Það myndi skila sér og verða til þess að ein­hverj­um sem líður illa og finnst þeir van­mátt­ug­ir gætu haldið áfram, farið í fram­halds­skóla og tek­ist á við lífið, sem þeim þætti jafn­vel óhugs­andi í dag. Ég þekki það vel.“

Hann seg­ir ung­menni mjög þakk­lát að sjá að þeir, sem heim­sækja skól­ana á veg­um Gróf­ar­inn­ar, séu bara „fólk eins og aðrir“ og að eng­inn þurfi að þykj­ast vera ein­hver ann­ar en hann er til að falla í hóp­inn. „Með því að hjálpa ung­menn­um strax erum við að skapa verðmæti og hjálpa þeim til að vera þátt­tak­end­ur í líf­inu. Ef við hlust­um á þau og hjálp­um minnka lík­urn­ar á að þau ein­angrist, leiti í vímu­efni eða falli jafn­vel fyr­ir eig­in hendi.“

Dæm­um ekki...

Margt já­kvætt má segja um það sem starf sem unnið er í geðheil­brigðismál­um, seg­ir Ey­mund­ur, og ein­mitt mik­il­vægt að draga ekki ein­ung­is fram hið nei­kvæða. Hann nefn­ir Gróf­ina, Laut­ina á Ak­ur­eyri þar sem er at­hvarf fyr­ir fólk yfir dag­inn, svo og mik­il­væga starf­semi Bú­setu­deild­ar bæj­ar­ins, Starf­send­ur­hæf­ingu Norður­lands og Virk, auk fé­laga­sam­taka og li­ons­klúbba sem hafi styrkt Gróf­ina fjár­hags­lega.

Ey­mund­ur seg­ir marga sem glíma við geðrask­an­ir leita í vímu­efni og þess vegna þurfi að ráðast að rót vand­ans; van­líðan­inni.

„Við erum öll mann­eskj­ur með til­finn­ing­ar en stund­um þurf­um við hjálp til að byggja upp til­finn­ing­arn­ar. Eng­inn ætti að þurfa að fela eig­in van­líðan; við erum búin að missa alltof marga út af slík­um felu­leik, fólk sem hef­ur ekki treyst sér til að leita sér hjálp­ar vegna ótta við for­dóma. Áður fyrr var geðveikt fólk bara lokað inni, en nú er þekk­ing­in svo mik­il að hægt er að hjálpa. Þar geta fé­laga­sam­tök eins og Hug­arafl og Gróf­in til dæm­is gert mikið gagn, bæði fyr­ir þá veiku, fyr­ir aðstand­end­ur og með því að sinna for­vörn­um.“

Ein mik­il­væg­ustu skila­boðin út í sam­fé­lagið séu þessi: „Dæm­um ekki það sem við þekkj­um ekki en hjálp­um ef við get­um, þó ekki væri nema að hlusta. Það get­ur gert krafta­verk.“

Greinahöfundur: 

Skapti Hallgrímsson

Grein birt á mbl.is