Ferðafélag Íslands og nýja gönguverkefnið Aftur af stað
Ferðafélag Íslands er að fara af stað með nýtt gönguverkefni sem nefnist Aftur af stað og er endurhæfingarverkefni Ferðafélagsins.
Það er sérstaklega hugsað fyrir þá sem vilja fara af stað í hreyfingu og útiveru eftir veikindi, slys, meiðsl eða langvarandi hreyfingarleysi.
Verkefnið hentar einnig fyrir þá sem vilja rólega en reglulega og skemmtilega heilsurækt.
Námskeiðið hefst 16. janúar og lýkur 20. maí. Verkefnið felur í sér reglulegar göngur, sundleikfimi, styrktar- og liðleikaæfingar og jóga. Auk þess sem farið verður í sex léttar fjallgöngur í nágrenni höfuðborgarsvæðisins á tímabilinu. Aftur af stað er einstaklingsmiðað verkefni og mikil áhersla lögð á að hver og einn þátttakandi finni sinn hraða. Námskeiðið fer fram á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum og þriðja hvern laugardag.
Innifalið eru vikulegir fræðslufundir í samstarfi við SÍBS. Fræðslupakkinn nefnist Betra líf og heilsa - lífstílsþjálfun. Fræðsluna hefur SÍBS útbúið úr efni frá CDC - Centers for disease control and prevention. Um er að ræða fræðslu með áherslu á hreyfingu, mataræði og streitustjórnun. Að auki fá þátttakendur almenna heilsufarsmælingu í byrjun, um miðbik tímabilsins og í lok verkefnisins.
Umsjón með verkefninu hafa Bjarney Gunnarsdóttir og Steinunn Leifsdóttir. Þær eru báðar menntaðir íþróttafræðingar og hafa mikla reynslu af einstaklingsmiðaðri þjálfun og endurhæfingu.
Fyrir nánari upplýsingar um verkefnið er hægt að hafa samband við Ferðafélag Íslands í síma 568-2533.
Fyrsta vikan er prufuvika og þá eru allir velkomnir að koma og máta sig við hópinn. Dagskrá prufuvikunnar er eftirfarandi:
Mánudagur 16. janúar kl. 18:00 - Ganga, mæting við Árbæjarlaug.
Miðvikudagur 18. janúar kl. 20:00 - Léttur göngutúr og kynning á fræðsluefni, mæting við FÍ Mörkinni 6.
Föstudagur 20. janúar kl. 12:00 - Sundleikfimi, mæting í Æfingastöðina Háaleitisbraut 13.