Ég er eins og ég er - Mjög svo góð hugleiðing í dag
Aldrei umfram heimild
Af hverju gerist þetta? Ítrekað? Af hverju gerum við þetta? Aftur og aftur. Á því er einföld skýring:
Við stöndum ekki við eigin áætlanir af því að við höfum ekki gefið okkur heimild til þess.
Og vegna þess að við stöndum ekki við orð okkar rýrum við heimildina enn frekar.
Við höfum ekki gefið sjálfum okkur heimild til að lifa í velsæld. Þess vegna svíkjum við svona fyrirætlanir aftur og aftur, svíkjum það þegar við teljum okkur trú um að NÚNA sé kominn tími til að breyta um lífsstíl, breyta mataræðinu, losa sig við reykingarnar og áfengið og skyndibitann og svo framvegis!
Við viljum trúa því að við viljum lifa í velsæld, og hugsanlega er það satt. Hugsanlega mögulega viljum við lifa í velsæld. En við trúum því ekki að við eigum það skilið. Við höfum ekki gefið okkur heimild til þess. Ekki sannarlega, ekki fyrir fullt og allt. Þegar við stöndum með greiðslukortið í höndunum og kaupum árskortið í ræktina erum við vissulega tilbúin að veita okkur heimild til líkamlegrar velsældar, tilbúin til að kýla á þetta.
Eða hvað? Erum við að kaupa árskortið á röngum forsendum? Er það á forsendum nauðhyggju? „Ég verð nú að fara að gera eitthvað í þessum aukakílóum.“ Eða á forsendum ótta við álit annarra? „Ég get ekki látið sjá mig með þetta spik í sundi í sumar.“
Það er mikill munur á því að gera eitthvað af því að ég elska mig eða gera eitthvað af því að utanaðkomandi hugmynd eða viðhorf telur mér trú um að ég verði að gera það.
Þetta er það sem er auðveldast að flaska á – að ég get aldrei farið djúpt inn í líf í velsæld þegar ég er ekki tilbúinn að segja, af öllu hjarta:
„Ég elska mig samt.“
Þetta er tvíbent sverð. Þú öðlast ekki heimild til velsældar fyrr en þú skapar umgjörðina og þú skapar ekki umgjörðina fyrr en þú gefur þér heimild til velsældar.
Og hvað er nóg til að byrja? Að í þér búi pínulítið fræ sem trúir því að þú megir öðlast heimild. Þegar þú notar það fræ til að búa til umgjörðina byrja ný ferli að snúast þér í hag. Velsældin hefst.
Ég er tíu kílóum of þungur – ég elska mig samt.
Ég á erfitt með að ná endum saman – ég elska mig samt. Ég er eins og ég er –
ég elska mig samt. Það er allt í drasli heima hjá mér – ég elska mig samt.