Guðni skrifar um heitbindingu í dag - hugleiðing á fimmtudegi
Opið hjarta þarf engan skjöld
Heitbindingin flettir skildinum af hjartanu – það verður berskjaldað því berskjaldað vill hjartað vera. Það treystir fullkomlega á eigin mátt og ljósið sem í því býr. Opið hjarta þarf engar varnir – aðeins frelsi til að skína ljósinu og útvarpa tíðninni á hæsta mögulega styrk.
Hvaða lögmál býr á bak við þetta? Að opið hjarta er aðeins ást, aðeins ljós – og þegar ég elska með öllu hjartanu þá er ég ekki í „ég“ hugsuninni heldur „við“ hugsuninni. Þá skil ég að ég er við, að allt er ég – og þar með hef ég ekkert að óttast.
Fullnægjan gengur út á að sleppa spennitreyju skortdýrsins og byrja að deila sér með heiminum; að gefa gjafirnar en spenna ekki greiparnar í kringum þær. Fullnægjan felst í því að þora að hleypa heiminum inn í hjartað og hjartanu út í heiminn.