Fara í efni

Guðni skrifar um gildin sem við veljum okkur í lífinu

Guðni skrifar um gildin sem við veljum okkur í lífinu

Gildi er valið og ígrundað lífsviðhorf

Óígrunduð ályktun er bara ályktun – en gildi er valið lífsviðhorf.

Þú átt þér ekki eigin gildi fyrr en þú sest yfir þau viðhorf sem þú hefur um lífið og tilveruna og tekur ákvörðun um það hvort þau henti þér.

Gildi er grunnhugmynd sem þú hefur um lífið og tilveruna og hefur tekið ígrundaða ákvörðun um að nota í daglegu lífi. Þetta getur átt við smávægilega og hversdagslega hluti: „Það á alltaf að klára af diskinum sínum.“ Og líka stærri og áhrifameiri svið lífsins: „Hjónabandið er heilagt og því er rangt að skilja.“

Öll eigum við langan lista yfir staðhæfingar eða setningar af þessu tagi, bæði stórar og smáar. Sumum þeirra beitum við á hverjum degi en öðrum sjaldnar. Mörgum þeirra vitum við ekki af fyrr en tilteknar aðstæður myndast og við þurfum að beita þeim.

Ef ég keyri líf mitt áfram á ályktunum sem ég hef ekki ákveðið fyrir mig þá ber ég samt ábyrgð á þeim. Sá sem er tilbúinn til að taka ábyrgð á eigin lífi – umgengni við heiminn og annað fólk, uppeldi á börnum sínum – sest niður, skoðar ályktanirnar sem hann notar og ákveður hverjum þeirra hann vill breyta í gildi og hverjum hann vill henda beinustu leið í ruslið.