Fara í efni

Hjartað er keisarinn - Guðni með fallega hugleiðingu á laugardegi

Laugardagshugleiðing.
Hjartað er keisarinn - Guðni með fallega hugleiðingu á laugardegi

Hugurinn ber þig hálfa leið – en hjartað alla

Heitbindingin er að leyfa sér að opna hjarta sitt, rífa utan af því plastið og skjöldinn og upplifa að hjartað er keisarinn – að láta af efanum og treysta á eigin vilja, tilvist og tilgang. Öll streita er uppsafnaður efi og ótti sem minnkar slagrými hjartans – og efinn er eins langt frá ást og ljósi og hugsast getur. Það er lengsta og erfiðasta fjarlægðin.

En við elskum efann svo mikið:
„Já en, hvað ef einhver ræðst á mig? Heimurinn er svo grimmur ...“
Okkur er tamt að vilja verja hjartað og slá um það varnarhjúp. Í reynslubankanum eru fjölmörg sönnunargögn sem benda til þess að heimurinn sé grimmur og annað fólk sé líka grimmt – en grimmust séum við sjálf í eigin garð. Þess vegna treystum við ekki – ekki heiminum, ekki öðrum, ekki okkur.

En þetta þrefalda vantraust er blekking eins og svo margt annað. Eina vantraustið sem skiptir máli er það sem við höfum í eigin garð. Því þegar við treystum sjálfum okkur þá skiptir engu máli hvernig heimurinn er og hvernig ekki; hvernig aðrir haga sér í okkar garð.

Þá verður það allt að aukaatriði. Sá sem mætir í eigin mátt í núið og treystir sjálfum sér tekur öllu lífinu fagnandi og elskar það eins og það er. Hann þarf ekki einu sinni dóma.