Hugleiðing dagsins frá Guðna Gunnarssyni lífsráðgjafa
Það er aðeins ein leið til að lifa lífinu lifandi, glóandi, glimrandi, ljómandi: Í ábyrgð og fullri heimild til velsældar.
Það felur í sér að þú gerir ekkert sem er ekki gott fyrir þig. Og þegar þú gerir eitthvað sem er ekki gott fyrir þig gerirðu það með fullri heimild og ýtrasta kærleika. Þú gerir það án þess að sparka í þig liggjandi – með bros á vör og í vitund gleypirðu eitrið og dregur þar með úr því tennurnar og eyðileggingarmáttinn.
Þegar þú neitar að fyrirgefa þér er dulinn tilgangur þinn að færa rök fyrir eigin takmörkunum og lama getu þína til að vera skapari í eigin lífi. Að vilja ekki fyrir gefa sér er yfirlýsing um að þú lítir svo á að þú verðskuldir ekki að njóta velsældar og hamingju.
Með hliðrunum og afneitunum fóðrar þú dulinn tilgang skortdýrsins.
Þú notar truflun og afþreyingu eða fjarveru til að halda þér uppteknum, en það útilokar ekki sársaukann heldur bælir hann aðeins niður og fóðrar hann. Hann rís enn sterkar upp næst, fúll yfir að hafa látið bæla sig, endurnærður eftir dvölina í myrkrakompunni. Og þá þarftu að grípa til enn sterkari deyfingarmeðala ... og svo framvegis.