Hvernig er þitt svefnherbergi? - hugleiðing Guðna á föstudegi
Eitt herbergi er heilagt
Allt sem við gerum opinberar okkur og þau viðhorf sem við höfum. Hvaða virðingu ber ég gagnvart mínu mikilvægasta einkarými? Á mínu heimili gilda ákveðnar reglur. Ein þeirra er t.d. sú að enginn fer inn á skítugum skónum. Það er regla sem er viðhöfð á mörgum heimilum.
Lítum samt aðeins á það herbergi sem við verjum mestum tíma í – svefnherbergið. Í því herbergi hvílumst við, spjöllum, lesum, elskumst.
Hvernig er þitt svefnherbergi? Hvaða sögu segir það um þitt sálarlíf? Heldurðu að ástand svefnherbergisins hafi áhrif á sálarástand þitt?
Í svefnherberginu mínu er friðhelgi. Það er heilagt. Þar eru engin rafmagnstæki fyrir utan ljós. Það er snyrtilegt og þar er engin óreiða. Þar er ekkert sjónvarp.
Það eina sem má gera í svefnherberginu er:
Að sofa, að hvílast, að elskast, að spjalla í léttu tómi, að lesa og lesa fyrir börnin.
Ekkert annað.
Manneskjur sem búa saman þurfa oft að ræða málin og stundum upphefst flókin umræða á milli þeirra fyrir svefninn.
Á mínu heimili er reglan einföld: Við hjónin færum okkur í stofuna eða eldhúsið þegar við finnum að við þurfum að ræða um flóknari hluti, þegar við upplifum viðnám og viðhorf okkar eru ólík; þegar við þurfum að fást við tiltekin málefni sem krefjast úrlausna, yfirlegu og jafnvel málamiðlana.
Við viljum halda svefnherberginu friðhelgu áfram og berum virðingu fyrir því sem heilögum stað.
Við vöðum ekki inn í hjartað á skítugum skónum – við sýnum hjartanu og rými þess tilhlýðilega virðingu.