Fara í efni

Hvert augnablik býður þér upp á tækifæri - Guðni með hugleiðingu dagsins

Ljósmynd: Sveinn Jónasson
Ljósmynd: Sveinn Jónasson

Orkan segir sannleikann

Hvert augnablik býður þér upp á tækifæri og í þessu tækifæri felast tvær leiðir – þú getur farið inn í fjarveru og hafnað þessu tækifæri á einu augabragði með einni af fjölmörgum leiðum til höfnunar eða þú getur verið vitni og fylgst með í fullum og ljóslifandi kærleika; verið vitni sem þakkar kurteislega fyrir sig.

Það er ekki hægt að gera hvort tveggja. Eitt útilokar annað, rétt eins og ljós útilokar myrkur.
Innsæið gerir manni kleift að vita nákvæmlega og samstundis hvora leiðina við höfum valið.

Hvernig?
Það verður svo augljóslega minna ljós, um leið og stigið er inn í fjarveruna, viðnámið, höfnunina. Orkan segir alltaf sína sögu um það hvort við erum eða hvort við erum farin – við förum strax að finna vanmátt okkar og verðum ekki fyllilega með sjálfum okkur. Fjarveran er myrkur og við finnum alltaf fyrir myrkrinu – finnum alltaf fyrir því þegar ljósið hverfur.
Þá þarf strax að gera ráðstafanir.

Innsæi er athygli með verkvilja – í innsæi sérðu með augum sálarinnar. Þar er alltaf leiftur, engin hugsun, aðeins tær eftirtekt og hlustun.
Innsæi er tær vitund, hjartað er beintengt.
Og auðvitað ratar tær vitund út úr völundarhúsi sem maður byggði sjálfur og rataði ekki út úr í skertri heimild. Því þannig er blekkingin; hún er völundarhús og þaðan er aðeins hægt að rata með sterku ljósi.

Þegar þú ert í sannri nánd við aðra manneskju upplifir þú tíðni hjartans í léttum skjálfta sem hríslast eins og þægilegur ylur um allar frumur líkamans.