Lausnin felst í ábyrgðinni - Hugleiðing dagsins
Allar lausnir eru fólgnar í því að taka fulla ábyrgð á eigin tilvist; að skilja að við erum þar sem við erum af því við fórum þangað; að við erum eins og við erum af því að við gerðum okkur þannig. Það eru engin slys, aðeins orsök og afleiðing af ákvörðunum okkar og gjörðum.
Lausnin felst í ábyrgðinni – frelsið felst í ábyrgðinni. Í augnablikinu þegar þú mætir, þegar þú sest aftur í stólinn og þolir við í meira en eina mínútu, þegar þú getur setið í stólnum eða sófanum og látið þér leiðast – án þess að vera leiður; þegar þú getur bara verið án þess að þurfa að gera eitthvað annað eða vera með hugann við eitthvað annað.
Þá ertu mættur. Og þá ertu máttur – með máttinn, máttugur, voldugur, með vald; ekki vald í neikvæðri merkingu heldur í fullkomlega jákvæðri og andlegri merkingu – vald til að valda, valda eigin lífi, valda eigin viðbrögðum og velja eigin viðbrögð.
Ekki í vansæld heldur velsæld – jafnvel valsæld.
Þá ertu mættur í máttinn til að valda því að velja viðbragð. Í stað þess að bregðast við áreiti út frá hvötum skortdýrsins með taugakipp sem þú hefur enga stjórn á veldurðu því að velja viðbragð.