Lýtalækningar
Á vefsíðunni ablaeknir.is má finna mjög góðar upplýsingar er varða lýtalækningar. Síðan er í eigu Ágústs Birgissonar lýtalæknis.
Lýtalækningar og fegrunarlækningar eru sitt hvort heitið yfir sömu aðgerðirnar.
Það geta verið margar og mismunandi ástæður fyrir því að einstaklingar leita til lýtalækna.
Fyrsta skref margra er að leita upplýsinga og gera sér grein fyrir hvað hægt er að gera.
Lýti geta verið af ýmsum toga en oftast er það eitthvað sem einstaklingnum finnst vera áberandi í útliti sínu og hann er óánægður með.
Það er að sjálfsögðu bundið einstaklingum hvað menn telja vera lýti en ef þau valda óþægindum er full ástæða til að leita álits lýtalæknis. Viðtal við lækni á faglegum og raunsæjum grunni leggur grunn að því hvort einstaklingurinn ákveður að fara í aðgerð eða ekki.
Lýtalæknar takast á við afleiðingar slysa og sjúkdóma en þeir hjálpa einnig fólki vegna útlitsgalla sem það telur að hefti sig á einhvern hátt. Lýtalæknar geta einnig aðstoðað við að draga úr ótímabærum öldrunareinkennum.
Tryggingastofnungreiðir niður ýmsar aðgerðir sem lýtalæknar framkvæma.
Almennar upplýsingar fyrir aðgerð
Lyf
Í eina viku fyrir og eftir aðgerð máttu ekki taka bólgueyðandi lyf (magnyl, hjartamagnyl, asperín, íbúfen, naproxen, voltaren, vóstar o.fl.). Þessi lyf þynna blóðið og auka blæðingarhættu. Í staðinn máttu nota paracetamól eða parkódín.
Reykingar
Ef mögulegt er áttu að hætta að reykja 6 vikum fyrir aðgerð og eina viku á eftir. Reykingar hafa neikvæð áhrif á blóðflæði húðarinnar. Sjúklingar sem reykja hafa 40% hærri sýkingartíðni en þeir sem ekki reykja og hærri tíðni á húðdrepi, blóðtappa, lungnabólgu eftir svæfingu ásamt fleiri kvillum.
Hreinlæti
Farðu í góða sturtu eða bað kvöldið fyrir aðgerð og að morgni aðgerðardags. Þvoðu þér með mildri sápu en ekki nota snyrtivörur, farða né rakakrem á aðgerðasvæðið. Taktu naglalakk, eyrnalokka og pinna af þér. Vertu í þægilegum fötum sem er auðvelt að fara úr og í.
Svæfing & deyfing
Ef aðgerðin er gerð í svæfingu, mænudeyfingu eða leiðsludeyfing (plexus) áttu að koma fastandi sem þýðir að þú mátt ekki borða mat eða drekka í 6 tima fyrir aðgerð. Þó er leyfilegt að drekka vatn þar til 2 tímum fyrir aðgerð. Vegna álags sem svæfingin og aðgerðin hefur á líkamann, er ekki mælt með að þú keyrir heim eftir aðgerð. Gerðu því ráðstafanir svo einhver sæki þig að aðgerð lokinni.
Tryggingastofnun og greiðslur vegna aðgerða
Ef Tryggingarstofnun tekur þátt í aðgerðinni þá greiðir sjúklingur sinn hluta eftir aðgerð. Hluti sjúklings fer eftir því hvaða aðgerð er gerð, hvort hann er með afsláttarkort og svo skiptir máli hvort um barn, öryrkja eða ellilífeyrisþega er að ræða. Ef um fegrunaraðgerð er að ræða sem Tryggingastofnun tekur ekki þátt í þá þarf að greiða aðgerðina fyrirfram á viðeigandi bankareikning.
Eftir aðgerð
Ef um deyfingu er að ræða, þá ferðu heim að aðgerð lokinni, en ef þú hefur fengið svæfingu þá ertu í nokkrar klukkustundir á stofunni hjá okkur. Þú færð verkjalyf eftir þörfum þar til þú hefur jafnað þig og getur farið heim.
Gerðu ráðstafanir svo einhver sæki þig því svæfing, slævandi lyf og verkalyf gera það að verkum að ekki má aka bíl. Áður en þú ferð heim, færðu endurkomutíma og lyfseðil fyrir verkjalyfjum eftir því sem þörf er á.
Þegar heim er komið
Þegar þú kemur heim skaltu taka því rólega og þú mátt ekki reyna á þig. Áreynsla eykur blæðingarhættu og veldur því að þú verður miklu lengur að ná þér. Mar og bólga verða lengur að hverfa og einnig getur skurðurinn opnast.
Vandamál
Ef vandamál koma upp þegar heim er komið, fyrsta sólarhringinn eða svo - hringdu þá í GSM númerið sem þú færð með þér að aðgerð lokinni eða hafðu samband við viðkomandi læknastofu á skrifstofutíma
Bólgur
Eftir allar aðgerðir bólgnar aðgerðarsvæðið. Aðgerðarsvæðið bólgnar alltaf og nær bólgan hámarki á öðrum til þriðja degi eftir aðgerð. Eftir það fer hún minnkandi. Mesta bólgan er horfin eftir eina til þrjár vikur en það geta liðið nokkrir mánuðir þar til hún er öll horfin. Þú færð verkjalyf eftir þörfum. Ef bólga kemur skyndilega á fyrsta sólarhringnum, er hugsanlega blæðing undir húðinni sem þarf að stoppa. Það þarf því einstaka sinnum að opna aftur, fjarlægja blóðköggul og stöðva blæðinguna. Ef þetta gerist er það venjulega á fyrstu12 klst. eftir aðgerð.
Næstu dagar
Bólgan getur aukist fyrstu þrjá dagana en eftir það fer hún minnkandi. Krem eða aðrar snyrtivörur má ekki nota á aðgerðasvæði fyrstu tíu dagana eftir aðgerð. Ekki vera úti í sól að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar, ekki stunda neinar íþróttir, æfingar, hlaup eða skokk eða annað sem þú svitnar við í sex vikur eftir aðgerð. Gefðu líkamanum tíma til að græða sárin.
Ör
Örin er rauð og hörð til að byrja með. Þau verða ljósari og mýkri með tímanum og oftast eru þau orðin alveg ljós og mjúk að hálfu ári liðnu. Árangur aðgerðar er því ekki hægt að meta fyrr en að þeim tíma loknum. Forðast ber að láta sól skína á örið fyrstu sex mánuðina eftir aðgerð og nota skal sólarvörn. Örið verður fínna ef þú hlífir því með plásturslímbandi í þrjá til sex mánuði eftir aðgerð. Plásturslímbandið er brúnt, framleitt af 3 M og fæst í flestum apótekum.
Svæfing og deyfing
Þegar þú kemur til viðtals um aðgerðina, þá ræðum við meðal annars um þá deyfingu sem passar þér best. Valið snýst um það hvort notuð verði staðdeyfing, leiðsludeyfing, mænudeyfing, Plexus deyfing eða svæfing - allt eftir því hvaða aðgerð á að gera og hvað passar þér best.
Undirbúningur sjúklings
Ef aðgerðin er gerð í svæfingu, mænudeyfingu eða leiðsludeyfing (plexus) áttu að koma fastandi sem þýðir að þú mátt ekki borða mat eða drekka í 6 tima fyrir aðgerð. Þó er leyfilegt að drekka vatn þar til 2 tímum fyrir aðgerð. Vegna álags sem svæfingin og aðgerðin hefur á líkamann, er ekki mælt með að þú keyrir heim eftir aðgerð. Gerðu því ráðstafanir svo einhver sæki þig að aðgerð lokinni.
Svæfing
Fyrir svæfingu mun svæfingarlæknirinn tala við þig um heilsufar, lyfjanotkun og annað sem hann þarf að vita, ásamt því að útskýra svæfinguna og fara yfir hugsanlegar aukaverkanir. Í stuttu máli gengur þetta þannig fyrir sig að þú færð æðalegg, svo auðvelt sé að gefa svæfingarlyf. Þú andar að þér súrefni og um leið eru þér gefin svæfingarlyf á þægilegan hátt. Á meðan á svæfingunni stendur finnur þú ekki fyrir sársauka.
Að aðgerðinni lokinni vaknarðu smám saman og verður svolítið utan við þig í fyrstu en það tekur svolitla stund að vakna alveg. Þegar þú ert vaknaður, færðu verkjalyf ef þörf er á. Algengustu aukaverkanir svæfingar eru þreyta, sljóleiki og stundum ógleði. Til eru ógleði lyf sem gægt er að gefa ef þörf er á. Undir sjálfri aðgerðinni er svæfingarlæknirinn hjá þér og passar upp á að allt sé í lagi - fylgist með blóðþrýstingi, hjartslætti, öndun og öðru því sem skiptir máli.
Mænudeyfing (Spinal deyfing )
Við aðgerðir á neðri hluta kviðar og neðri útlimum er hægt að nota mænudeyfingu. En þá er sett deyfiefni meðfram taugunum í hryggnum. Þú liggur á hlið eða á grúfu á meðan svæfingarlæknirinn sprautar deyfiefninu. Neðri hluti líkamans dofnar og því hægt að gera aðgerðina. Efri hluti líkamans dofnar ekki og þú getur því verið vakandi á meðan á aðgerðinni stendur. Deyfingin fer smám saman úr, og þá færðu verkjalyf ef þörf reynist.
Plexus deyfing
Við þessa deyfingu er deyfiefni sprautað kringum aðaltaugastofn upphandleggs, alveg upp við handarkrika. Deyfingin tekur um 10-15 min að virka og endist svo í um það bil 2 klst. Á meðan er handleggurinn og höndin dofin og hægt að gera aðgerðina með eða án svæfingar eða í slævingu.
Leiðsludeyfing
Hér er sett deyfiefni kringum taug aðgerðarsvæðis og aðeins lítill hluti likamanser dofinn. Deyfingin tekur um 5 mín að virka og endist í um 2 klst.
Staðdeyfing
Við staðdeyfingu er deyfiefni oft blandað adrenalíni sem dregur æðar saman og minnkar blæðingu á meðan á aðgerð stendur og lengir deyfitímann. Deyfiefninu er sprautað staðbundið í aðgerðarsvæðið. Þetta er gert við minniháttar aðgerðir.
Slæving
Oft eru notuð slævandi lyf til að minnka það stress og kvíða og gera þannig aðgerðina auðveldari fyrir viðkomandi einstakling.
Áhætta við aðgerð
Áhætta er við allar skurðaðgerðir og þær algengustu eru: blæðing, sýking, breyting á húðskyni, ofholdgun í öri og örvefsmyndun (kapsúlumyndun) ef ífylling hefur verið notuð við aðgerð.
Blæðingar
Þegar skorið er í húðina er viss hætta á að blóðið eða vefurinn, hagi sér ekki eins og búist er við. Þetta getur verið vegna lyfja sem fólk er að taka, blæðingarsjúkdóma, háþrýstings og fleira. Fyrir aðgerð á því ekki að taka bólgueyðandi lyf (ibuprofen eða svipuð lyf) eða önnur sem þynna blóðið. Einstaka sinnum þarf að rannsaka sjúkling frekar áður en hægt er að gera aðgerðina. Smá húðblæðingu (mar) myndast alltaf eftir aðgerð, en ef æð opnast eftir aðgerð eða aðgerðarsvæðið bólgnar skyndilega upp(gerist á fyrstu 6-12 klst.) getur þurft að opna skurðsárið aftur, hreinsa það og stoppa blæðinguna. Ef þú ert kominn heim að aðgerð lokinni og verður var við að aðgerðarsvæðið bólgnar skyndilega upp, hringdu þá strax.
Sýkingar
Við allar aðgerðir er viss sýkingarhætta sem er mismunandi eftir aðgerðum og sjúklingum. Við aðgerðina er gætt ýtrasta hreinlætis og stundum er gefið sýklalyf til að fyrirbyggja sýkingar. Flestar sýkingar koma frá sjúklingnum sjálfum. Það er því mikilvægt að fara í sturtu og þvo sér vel með mildri sápu kvöldið fyrir aðgerð og að morgni aðgerðardags. Sýkingarhætta er venjulega talin vera frá 1-5%. Oftast er um yfirborðssýkingar að ræða sem hægt er að meðhöndla með sýklalyfjum og góðri meðhöndlun sársins. Þeir sem reykja eru í 40% meiri hættu að fá sýkingar en þeir sem ekki reykja. Sýking hefur alltaf áhrif á árangur aðgerðar og tefur það að sárið grói. Djúp sýking getur átt sér stað, jafnvel þannig að opna þurfi sárið og hreinsa það eða fjarlægja ífyllu (implemant) ef það hefur verið notað.
Skynbreyting
Í húðnni er mikið af skyntaugum. Þegar skorið er í húðina eru að sjálfsögðu þessar fínu taugar skornar í sundur líka. Oftast grær sárið og aðlægar taugar taka við, þannig að aðeins verður minniháttar breyting á húðskyninu. Yfirleitt er þetta fyrirsjáanlegt og verður rætt við hvern og einn eins og tilefni er til. Við einstaka aðgerðir er þó áhættan meiri og er það útskýrt í viðtali við einstaklinginn fyrir aðgerðina (á oft við um vissar aðgerðir á höndum). Oftast er skynbreytingin þannig að húðskyn minnkar í kringum skurðsárið og það getur tekið allt að tveimur árum að ganga til baka. Í afar fáum tillfellum getur skynbreytingin orðið ofurskynjun sem lýsir sér þannig að fólk er mjög viðkvæmt fyrir allri snertingu við skurðsvæðið.
Ljót ör
Jafnvel hjá færustu lýtalæknum verða ör eftir aðgerð! Skurðir gróa misvel sem fer eftir því hvar þeir eru á líkamanum og einnig eftir húðgerð sjúklings. Ef sýking verður í skurðinum verður örið ljótara. Skurðir gróa með örmyndun. Lega skurðarins er valin þannig að örið verði eins lítið áberandi og hægt er. Ef skurðurinn grær með ljótu öri er oft hægt að laga það að hálfu ári liðnu - þá með nýrri aðgerð og von um að skurðurinn grói betur í það skiptið. Ör verður minna áberandi ef maður ver það fyrir sól (notar sólarvörn) og notar plásturslímband til að halda því saman í 3-6 mánuði á eftir.
Bandvefsherping (Kapsúlumyndun)
Þegar lögð er inn í líkamann ífylling (t.d. brjóstapúði) svarar hann með að mynda bandvefshimnu utan um aðskotahlutinn og til að einangra hann. Þessi bandvefur hefur í sér kollagen og bandvefsfrumur sem hafa á margan hátt sömu eiginleika og ör. Það er mismunandi hve þykk þessi bandvefshimna verður. Hjá 2-10% af þeim sem eru með ífyllingu (prótesu) verður hún þykk og dregst saman eins og ör gera. Við þetta verður plássið minna fyrir fyllinguna og brjóstið verður hart. Þetta kallast örvefsmyndun eða kapsúlumyndun, þetta gerist hjá ca 3-6% einstaklinga sem fá ífyllu og myndast innan árs frá aðgerð. Hluti þeirra þarf þá að gangast undir aðra aðgerð, þar sem herpingin er klofin eða fjarlægð.
Grein fengin af vef ablaeknir.is