Ofurkúlur sem eru góðar fyrir hjartað - frá Heilsumömmunni
Það er dásamlegt að hægt sé að búa til eitthvað gott sem er líka brjálæðislega hollt.
Það sem ég nota í þessari uppskrift er t.d. mjög gott fyrir hjartaheilsuna og þá eru það aðallega 2 hlutir sem spila þar stórt hlutverk. Það eru valhnetur og hrákakó.
Ég hef verið að gera tilraunir með svo kallað hrá-kakó eða ofur-kakó. Það er reyndar ekki alveg hrátt (fæst kakó sem ganga undir nafninu hrá-kakó eru alveg hrá, amk. samkvæmt minni rannsóknarvinnu). En samkvæmt framleiðanda er þetta kakóduft ríkara af flavenóíðum en annað kakóduft. En flavanóíðar hafa góð áhrif á hjarta- og æðakerfið, hjartaæðarnar og blóðþrýsting. Kakóduftið er virkilega bragðgott og ég skellti í ofur hollar súper dúper nammi kúlur.
Fyrir utan það að vera bráðhollar eru þær mjög fljótlegar, bragðgóðar og tilvaldar fyrir litlar hendur að fá að spreyta sig við kúlugerðina, en hver segir svo sem að það þurfi endilega vera kúlur, leyfið bara hugmyndafluginu að ráða lögun.
Ofurkúlur sem eru góðar fyrir hjartað
Uppskriftin gerir 15 kúlur
Hráefni:
- 2 dl döðlur
- 1 dl pekan hnetur
- 1/2 dl valhnetur smátt saxaðar
- 1 1/2 msk kakó (ég notaði Super-Cacoa frá Aduna)
- 1 msk brætt kakósmjör
- 1 msk expresso kaffi
- kókosmjöl til að velta kúlunum upp úr
Aðferð:
- Setjið í döðlur og pekan hnetur í matvinnsluvél eða blandara.
- Bætið kakóduftinu við ásamt kakósmjörinu og vökvanum.
- Hnoðið valhnetunum saman við alveg í lokin.
- Mótið kúlur og veltið upp úr kókos.
- Kælið og njótið
Þær geymast í ísskáp í nokkra mánuði en klárast yfirleitt mjög fljótt.
Nokkur atriði sem þið getið nýtt ykkur:
- Það er ótrúlega bragðgott að rista pekanhneturnar. Þá set ég þær á ofnskúffu í 10 mín við 150°c. Það er sniðugt að rista heilan poka og geyma þær ristaðar í loftþéttri krukku. Þá þarf ég ekki að rista í hvert skipti. Þær eru líka virkilega góðar svona ristaðar út á salöt.
- Þegar þið þurfið bara að bræða 1 msk af kakósmjöri er sniðugt að setja einn kubb í glas og glasið ofan í skál með heitu vatni. Ef þið gerið það bráðnar þetta á meðan þið eruð að blanda döðlunum og hnetunum saman.
- Ég kaupi valhneturnar kurlaðar hjá Matarbúri Kaju svo ég þurfi ekki að saxa þær sjálf niður. Já svona getur maður nú verið latur stundum!
- Það má alveg bæta við smátt söxuðum rúsínum eða goji berjum saman við kúlurnar.
Fyrir áhugsama er hér lesning um hjartað og hnetur og hér um ofur-kakóið. Þeir sem eru ekki miklir lestrarhestar geta barið drifið sig beint inn í eldhús og farið að malla.
Uppskrift frá heilsumamman.com