Fara í efni

Reglurnar og gildin - hugleiðing Guðna í dag

Reglurnar og gildin - hugleiðing Guðna í dag

Ályktanir. Lánuð gildi. Hegðun sem við höfum lært fyrir slysni, tekið eftir hjá einhverjum og apað eftir; hegðun sem við höldum að sé rétt og sönn af því að svo margir hegða sér þannig. Hegðun sem við afritum og fylgjum í ósjálfráðum ótta við að vera öðruvísi en hinir.

Við ölum sjálf okkur upp og börnin okkar líka.

„Ekki leika þér með matinn!“ Af hverju ekki? Má ekki vera gaman að borða? „Notaðu hnífapörin en ekki puttana!“ Af hverju? Má ekki þvo sér um hendurnar og nota guðsgafflana af því að það er þægilegt?

Í mörgum löndum borðar fólk með höndunum. Það er ekki náttúrulögmál að nota hnífapör.

Hvaðan komu þessar reglur? Bjó ég þær til? Ef ekki, af hverju nota ég þær? Hef ég hugleitt hvort þetta séu góðar reglur? Eða er ég að beita þeim fyrir það eitt að þær hljóma kunnuglega – af því að þær eru órjúfanlegur hluti af því borðhaldi sem ég þekki og ólst upp við?

Hef ég gefið mér heimild til að endurskoða reglurnar og gildin? Taka ákvörðun um það hvort ég nota þær eða ekki?
Má ég það?

Er það hugsanlega mín ábyrgð?