Fara í efni

Timían kjúklingur með stökku beikoni og sveppum frá Eldhúsperlum

Dásamleg uppskrift fyrir helgina.
Timían kjúklingur með stökku beikoni og sveppum frá Eldhúsperlum

Þessir réttur er virkilega bragðmikill og góður. Sveppir og beikon passa alltaf svo vel saman og bragðið af timían og sítrónu smellur alltaf.

Klassísk samsetning. Virkilega gaman að bera réttinn fram á fallegu fati með stökku beikoninu stráðu yfir og saxaðri ferskri steinselju.

 

 

Timían kjúklingur með beikoni og sveppum (fyrir 4):

Hráefni:

  • 4 kjúklingabringur
  • 2 bakkar Flúðasveppir
  • 1 bréf beikon (lítið)
  • 2 dl hvítvín (má sleppa og nota meira kjúklingasoð)
  • Safi úr 1/2 – 1 sítrónu (fer eftir stærð, ég notaði bara 1/2)
  • 3 dl kjúklingasoð (vatn+kjúklingakraftur)
  • 3 msk rjómi
  • Salt, pipar og þurrkað eða ferskt timían
  • Smávegis af ferskri steinselju

Aðferð:

Byrjið á að kljúfa kjúklingabringurnar í tvennt eftir endilöngu á þykktina og berjið þær svo með kjöthamri eða botni á potti þannig að þær þynnist aðeins. Kryddið með salti, pipar og timían. Skerið beikonið í litla bita og sveppina í frekar stóra bita. Hitið pönnu við háan hita og steikið beikonið þar til það verður stökkt. Takið það af pönnunni og færið á eldhúspappír.

Steikið því næst kjúklinginn þar til hann er nánast alveg fulleldaður. Takið hann þá af pönnunni og geymið á diski.

Hækkið hitann, setjið smá smjör eða olíu á pönnuna og steikið sveppina þar til þeir hafa brúnast vel.Kryddið með salti, pipar og timían. Þegar sveppirnir hafa brúnast vel. Hellið þá hvítvíni á pönnuna og leyfið því að sjóða aðeins niður, tekur ca. 1-2 mínútur.

Bætið þá kjúklingasoðinu og sítrónusafanum á pönnuna ásamt rjómanum. Leyfið þessu að sjóða aðeins niður og smakkið til með salti og pipar. Leggið því næst kjúklinginn á pönnuna og látið hann hitna í gegn í sveppasósunni. Þegar kjúklingabringurnar eru heitar í gegn raðið þeim þá á fat og hellið sveppasósunni yfir.

Stráið því næst stökku beikoninu og steinseljunni yfir og berið fram t.d með einföldu salati. 

 

Uppskrift frá eldhusperlur.com