Við getum ekki gefið það sem við ekki eigum - hugleiðing dagsins
Elskaðu þig, gefðu – og heimurinn breytist
Við getum ekki gefið það sem við ekki eigum – breytingin þarf að eiga sér stað hjá okkur og hvergi annars staðar. „Vertu breytingin,“ sagði Gandhi, og átti auðvitað við að til lítils væri að krefjast breytinga hjá öðrum eða í samfélaginu þegar ekki hefðirðu fúsleika eða ást til að breyta í eigin garði.
Engin gjöf er stærri en sú að gefa – þú þiggur margfalt og samstundis. En að sama skapi þiggurðu aldrei meira en þú sannarlega gefur.
Okkur er tamt að fara framhjá þessum lögmálum gjafarinnar. Margir foreldrar halda því til dæmis fram að þeir elski börnin sín meira en sjálfa sig. Það er ekki hægt – þú getur ekki gefið meira en þú átt og þú getur ekki elskað aðra umfram ástina á þér.
Og þegar þakklæti og sátt ríkja ekki í hjörtum okkar þá verða orðaðar þakkir okkar hjóm eitt. Því það er tilfinning velsældar sem skiptir öllu máli, rétt eins og tilfinning þakklætis.
Þegar þú finnur fyrir velsæld, án þess að hún hafi endilega sýnt sig eða sannað efnislega, þá hefurðu opnað hjartað og tengst tilfinningum eða tíðni velsældar. Þannig laðar þú að þér allsnægtir og tryggir og treystir á allsnægtir og velsæld. Það er tilfinning velsældar sem skiptir öllu þegar þú ætlar að laða að þér gnægð.