Við vantreystum flest lífinu - hugleiðing dagsins frá Guðna lífsráðgjafa
Að nota líkamann til að þakka fyrir
Við vantreystum flest lífinu – og þar með líkamanum. Um leið og við byrjum að vera þakklát líkamanum og umgöngumst hann í kærleik, þá breytist hann ósjálfrátt úr spennu í mýkt; úr höfnun í ást.
Spennan minnkar og streitan líka, öndunin verður frjálsari og dýpri og hjartað slær til fulls. Í daglegri næringu felst mjög stórt tækifæri til að iðka þakklæti gagnvart líkamanum, sem er farartæki sálarinnar og risastór mælikvarði á andlega líðan okkar.
Flest horfum við á líkamann og segjum við hann: „Ég vil þig ekki. Ekki svona.“
Allt sem þú innbyrðir verður að líkama þínum sem er musteri sálarinnar. Bæði fæðan sem þú velur og þau viðhorf sem þú hefur til fæðunnar endurspegla þína birtingu á þeirri stundu þegar orka er innbyrt.
Hvort sem þú nærir beiskju eða reiði eða ást og umhyggju þá skiptir næringin miklu máli á hverri einustu stundu.