Fara í efni

VIÐTALIÐ: Ósk Matthildur ÍAK einkaþjálfari er nýr greinahöfundur á Heilsutorgi

Í tilefni af því að hún Ósk Matthildur ÍAK einkaþjálfari ætlar að deila með lesendum Heilsutorgs ýmisskonar fróðleik er snýr að heilsu og hreyfingu þá tókum við stutt viðtal við hana til að kynna hana fyrir lesendum okkar.
VIÐTALIÐ: Ósk Matthildur ÍAK einkaþjálfari er nýr greinahöfundur á Heilsutorgi

Í tilefni af því að hún Ósk Matthildur ÍAK einkaþjálfari ætlar að deila með lesendum Heilsutorgs ýmisskonar fróðleik er snýr að heilsu og hreyfingu þá tókum við stutt viðtal við hana til að kynna hana fyrir lesendum okkar.

 

Fullt nafn:

Ósk Matthildur Arnarsdóttir

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér og hvaðan þú ert?

Ég er 23 ára, fædd og uppalin í Sandgerði en bý nú í Reykjanesbæ. Ég hef alltaf haft áhuga á heilsu og öllu sem tengist heilbrigðum lífsstíl. Ég fór í einkaþjálfaranámið fyrir tveimur árum og útskrifaðist úr Íþróttaakademíu Keilis í júní 2016.

Menntun og við hvað starfar þú í dag?

Ég útskrifaðist úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja árið 2013 og áhugi minn fyrir heilsu og hreyfingu jókst jafnt og þétt eftir það. Í kjölfar þess tók ég Einkaþjálfarann hjá ÍAK þar sem ég lærði heilmikið og hef ekki stoppað í bransanum síðan þá.

Hver eru þín helstu áhugamál fyrir utan heilsuræktina og að hvetja aðra í ræktinni?

Að ferðast er mín ástríða enda geri ég mjög mikið af því. Annars skrifa ég mikið og nýt þess mjög, svo er ég mikið á snapchat í mínum frítíma en ég snappa mikið um heilsu, lífsstíl og hreyfingu en þess á milli um lífið og tilveruna (Snapchat: oskmatthildur). Svo er ég nýlega byrjuð að fikra mig áfram í blogg heiminum en bloggsíðan mín er í hönnun og styttist óðum í að hún verði tilbúin. Ég hreinlega get ekki beðið.

Hver er bakgrunnur þinn í íþróttum?

Ég æfði fimleika meiri hluta æsku minnar en hætti svo því mér fannst tími til þess að gera eitthvað annað. Fór að æfa dans og í kjölfarið að kenna dans, einnig hef ég verið með íþróttaskóla fyrir börn í Sandgerði.  Síðar kviknaði áhuginn minn fyrir ræktinni þegar ég og vinkonur mínar keyptum okkur hópþjálfun saman en við höfðum ekki stigið fæti inn í heilsuræktarsal fyrr. Það var þá fyrst sem ég áttaði mig á því að þetta væri það sem mig langaði til þess að gera. Ég hef því stundað fjölbreytta hreyfingu í gegnum árin.

Segðu okkur aðeins frá ÍAK náminu og hvaða leiðir það hefur opnað fyrir þig og styrkt þína þekkingu er snýr að heilsu og hreyfingu:

ÍAK einkaþjálfaranámið var í alla staði skemmtilegt og mjög krefjandi. Ég lærði heilan helling og ég mæli eindregið með þessu námi fyrir þá sem hafa áhuga á að starfa í tengslum við heilsu og hreyfingu. Áður en ég byrjaði hafði ég lesið mikið um hreyfingu og allt sem því tengist og taldi mig vita næstum allt sem því tengist. Hins vegar, eftir námið þá áttaði ég mig á því hversu lítið ég vissi í raun og veru, en nú hafa rosalega margar nýjar dyr opnast fyrir mér og kúnnahópurinn byggist hratt upp.

Hvað er það helsta sem við getum flest gert til að bæta eigin heilsu til framtíðar?

Hreyfing og hollt mataræði er lykilatriði þegar kemur að góðri heilsu, bæði andlegri og líkamlegri. Hjartað okkar er vöðvi eins og allir hinir vöðvar líkamans og við þurfum að hugsa vel um það svo það geti gegnt sínum mikilvægu störfum eðlilega.                                                                   

Að drekka nóg af vatni, borða hollan morgunmat alla morgna og borða reglulega yfir daginn. Einnig þurfum við að passa uppá að fá nægan svefn, helst 7-8 tíma á sólarhring.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum?

Kókosmjólk, gríska jógúrt, kjúklingaálegg.

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður?

Minn allra, allra uppáhalds matur er laxinn sem pabbi minn eldar, ég segi aldrei nei við boði í lax þegar hann eldar! En varðandi matsölustaði þá fer það algjörlega eftir því hvernig stuði ég er í en annars finnst mér Vegamót frábært staður og Gló klikkar seint, en ég er veik fyrir vinsælustu vefjunni þeirra með jalapeño-inu. Fæ vatn í munninn við tilhugsunina.

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið?

Núna er ég að lesa „Ég man þig“, en ég á mér ekki einhverja eina uppáhalds bók ennþá, þó eru bækurnar eftir Arnald Indriða eru alltaf í uppáhaldi hjá mér. Ég les mest bækur eftir hann.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú?

Mér finnst mjög gaman að verðlauna mig sjálfa eða tríta mig þegar ég hef náð ákveðnu markmiði sem ég hef sett mér eða yfirstigið ákveðinn þröskuld. Þá kaupi ég yfirleitt eitthvað nýtt fyrir sjálfa mig sem mig hefur langað í. Annars hef ég nú alltaf eitt svona "trít" kvöld í viku þar sem ég skrúbba líkamann, fer í heitt bað, ber á mig krem og set á mig andlitsmaska.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni?

Ég hef gert það að vana að horfa í spegilinn og segja upphátt "Þú getur þetta Ósk, ég trúi á þig" ásamt fleiri upphefjandi orðum. Það virkar mjög vel á mig. Ég hugleiði einnig fyrir innri frið og andlega orku.

Hvar sérð þú sjálfa þig fyrir þér eftir 5 ár?

Ég sé mig útskrifaða úr einhverju skemmtilegu og í meira námi erlendis með eitt barn í fanginu.