Byrjið á að kljúfa kjúklingabringurnar í tvennt eftir endilöngu á þykktina og berjið þær svo með kjöthamri eða botni á potti þannig að þær þynnist aðeins. Kryddið með salti, pipar og timían. Skerið beikonið í litla bita og sveppina í frekar stóra bita. Hitið pönnu við háan hita og steikið beikonið þar til það verður stökkt. Takið það af pönnunni og færið á eldhúspappír.
Steikið því næst kjúklinginn þar til hann er nánast alveg fulleldaður. Takið hann þá af pönnunni og geymið á diski.
Hækkið hitann, setjið smá smjör eða olíu á pönnuna og steikið sveppina þar til þeir hafa brúnast vel.Kryddið með salti, pipar og timían. Þegar sveppirnir hafa brúnast vel. Hellið þá hvítvíni á pönnuna og leyfið því að sjóða aðeins niður, tekur ca. 1-2 mínútur.
Bætið þá kjúklingasoðinu og sítrónusafanum á pönnuna ásamt rjómanum. Leyfið þessu að sjóða aðeins niður og smakkið til með salti og pipar. Leggið því næst kjúklinginn á pönnuna og látið hann hitna í gegn í sveppasósunni. Þegar kjúklingabringurnar eru heitar í gegn raðið þeim þá á fat og hellið sveppasósunni yfir.
Stráið því næst stökku beikoninu og steinseljunni yfir og berið fram t.d með einföldu salati.
Uppskrift frá eldhusperlur.com