Eins og sannir sælkerar eigum við erfitt með að standast gómsætar tertur.
Þegar við útbúum tertur notum við oftast aðferðir sem eiga uppruna sinn að rekja til hráfæðis. Það sem heillar okkur sérstaklega við þessa aðferð er hversu auðveld framkvæmdin er. Í hráfæðikökugerð þarf yfirleitt bara að mauka hráefnið í matvinnsluvél, þjappa í form og kæla. Það er nú allur galdurinn.
Hindberjatertan ómótstæðilega er virkilega ljúffeng, og svo er hún líka falleg og sómir sér vel á veisluborðinu, í kaffiboði og saumaklúbbnum. Tertan geymist vel í frysti, því er upplagt að útbúa hana með góðum fyrirvara.
Svo er alltaf gaman að eiga góða tertu í frystinum, ef gesti ber að garði. Ef þið viljið taka eina og eina sneið út í einu er sniðugt að skera tertuna í passlegar sneiðar áður en hún er fryst, þá er auðvelt að gæða sér á einni sneið með sunnudagskaffinu, án þess að afþýða alla kökuna.
Langbest er að nota form sem hægt er að smella frá á hliðinni, eins og þetta hér:
Okkur finnst mjög gaman að gera munstur í efsta lagið:
Hindberjatertan ómótstæðilega er saðsöm. Við njótum þess að gæða okkur á einni sneið í rólegheitum, ein sneið fullnægir sætindaþörfinni algerlega og við þurfum ekki meir.
3 dl döðlur
3 dl kókosflögur, þurrristaðar
3 msk kakóduft
1 msk kókosolía, fljótandi
¼ tsk sjávarsaltflögur
1-2 msk vatn
5 dl frosin hindber (látið þiðna yfir nótt í kæli)
2 ½ dl kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2 klst (gerir 3 dl útbleyttar hnetur)
1 dl hlynsíróp eða önnur sæta
1 tsk vanilluduft
1/8 tsk sjávarsalt
1 ½ dl kaldpressuð kókosolía
3 msk möndlusmjör
1/3 dl kókosolía
½ dl sæta, t.d. hlynsíróp
1 tsk sjávarsalt
50g (½ plata) 70% lífrænt og fairtrade súkkulaði
Uppskrift af vef maedgurnar.is